„Viljum að samfélagið verði á hreyfingu þessa helgi“

Innan við vika er í að skráningar hefjist á Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri sem haldið verður í Neskaupstað dagana 28. – 30. júní. Framkvæmdastjóri mótsins segir góða stemmingu grunnatriði mótsins.

 

„Fólk kemur til að gera meira en keppa í íþróttum. Það sækist eftir félagsskapnum, hittast, syngja, lifa lífinu og vera saman. Fólk á að njóta þess að vera til,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri mótsins, á íbúafundi í Neskaupstað í gær.

Fundurinn var haldinn til að kynna mótið og miðað við mætinguna virðist áhugann ekki vanta hjá bæjarbúum í Neskaupstað. Ómar Bragi fór yfir fyrirkomulag mótsins, sem fyrst var haldið árið 2011 og keppnisgreinarnar sem eru 21 talsins.

Sumar þeirra eru opnar þátttakendum undir fimmtugu, svo sem pílukast, strandblak og garðahlaup. „Við viljum að samfélagið hér verði á hreyfingu þessa helgi. Við getum öll tekið þátt á einhvern hátt.“

Ómar kynnti einnig dagskrá mótsins sem tilbúin er í grófum dráttum. Hefð er komin á nokkra liði, keppt verður í boccia á föstudegi, um kvöldið verður opnunarhátíð með línudansi, á laugardagskvöldi er skemmtikvöld og mótinu lýkur samkvæmt venju með stígvélakasti á sunnudegi. Þar er keppt um að kasta stígvélum sem lengst, en verðlaunað er einnig fyrir tilþrif, svo sem bestu hljóðin.

Ómar Bragi hvatti Norðfirðinga til að taka höndum saman um að gera mótið sem glæsilegast úr garði. „Samfélagið þarf að taka vel á móti gestum en líka að sýna gott fordæmi með að taka þátt í mótinu, bæði keppa og aðstoða við mótahaldið. Við þurfum heilmikla hjálp.“

Undir það tók Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, sem er keppnisstjóri ásamt Þorsteini Ágústssyni. „Við skulum vera dugleg til að tala um mótið á okkar vinnustað, hvetja þá sem náð hafa aldri til að taka þátt og aðra til að vera sjálfboðaliðar. Þetta er mótið okkar allra sem búum hér á svæðinu, ekki bara Norðfirðinga.“

Skráning á mótið hefst miðvikudaginn 15. maí. Þátttökugjald er 4900 krónur, óháð greinafjölda.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok