Tveir Íslandsmeistarar að austan
Keppendur UÍA fóru heim með tvenn gullverðlaun af Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss 11-14 ára sem haldið var um síðustu helgi.
Hrafn Sigurðsson og Björg Gunnlaugsdóttir fengu gullverðlaun í 600 metra hlaupi í flokki 13 ára og höfðu nokkra yfirburði yfir mótherja sína. Björg kom í mark á tímanum 1:45,02 mín og Hrafn á 1:48,52 mín.
Björg hlaut verðlaun í öllum þeim greinum sem hún tók þátt í. Hún náði silfri í 60 metra hlaupi á tímanum 8,69 sek og brons í langstökki þar sem hún stökk 4,35 metra.
Fjórir af fimm keppendum UÍA náðu á verðlaunapall. Birna Jóna Sverrisdóttir fékk silfur í kúluvarpi 12 ára stúlkna þar sem hún kastaði 8,54 metra og Steinar Aðalsteinsson brons í kúluvarpi 12 ára pilta þar sem hann kastaði 7,09 metra. Þá tók Hafdís Anna Svansdóttir þátt í sínu fyrsta MÍ.
Þá varð UÍA í níunda sæti í stigakeppni, sem er góður árangur miðað við fjölda keppenda.