Landsmót 50+: Þarf að virkja allt samfélagið til þátttöku

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri landsmóta UMFÍ, hefur yfirumsjón með undirbúningi Landsmóts 50 ára og eldri sem haldið verður í Neskaupstað 28. – 30. júní á næsta ári. Ómar Bragi hefur leitt 50+ mótin frá 2015 en hann er Austfirðingum að góðu kunnu sem framkvæmdastjóri Unglingalandsmótanna á Egilsstöðum 2011 og 2017.


Hvernig finnst þér undirbúningurinn ganga?
Hann er eftir áætlun. Það er búið að skipa öfluga landsmótsnefnd með flottu fólki úr Neskaupstað. Það finnst að þessi hópur hefur tekist á við svona verkefni áður og veit um hvað málið snýst og ég er spenntur fyrir að vinna með honum.
Næstu skref eru að ákveða keppnisgreinarnar og þá förum við að sjá stóru myndina. Við búumst við að keppnisgreinarnar verði staðfestar þegar nefndin hittist næst í febrúar.

Til að svona mót gangi vel þurfa fleiri að koma að því heldur en nefndin, ekki satt?
Stuðningurinn þarf fyrst og fremst að koma úr nærsamfélaginu og við þurfum að vera dugleg að afla sjálfboðaliða. Vonandi fá félögin á svæðinu að njóta einhverra ávaxta af þeirri vinnu sem þau leggja til. Við treystum líka á að Norðfirðingar verði heima og taki þátt. Það þarf að virkja allt samfélagið til þátttöku. Við viljum taka vel á móti fólki þannig að gestir upplifi samfélagið á jákvæðan hátt.

Hvernig finnst þér aðstaðan í Neskaupstað? Þar er til dæmis ekki frjálsíþróttaaðstaða.
Helstu mannvirki eru til staðar og mjög fín. Við látum aðstöðuna ekki stoppa okkur í neinu á þessu móti heldur finnum við lausnir. Á hverjum stað er mismunandi þekking. Vissulega er ekki hlaupabraut með tartanefni í Neskaupstað en við leysum það. Aðstaðan var sambærileg í Hveragerði þar sem mótið var haldið 2017 og hún verður ekki síðri í Neskaupstað. Við höfum unnið með hópi frjálsíþróttafólks sem hefur mikinn áhuga á mótinu og meðal annars fengið lista yfir hvaða greinar sé æskilegt að hafa. Við erum að fara yfir þann lista og reyna að búa til aðstöðu þannig að allir verði eins sáttir og hægt er.

Við hverju megum við búast af mótinu í Neskaupstað?
Skemmtilegu móti. Auðvitað er það fyrst og síðast fyrir fimmtíu ára og eldri en það eru líka ýmsar greinar opnar fyrir yngra fólk. Við viljum virkja samfélagið á Norðfirði og Austfirðinga alla til að koma og taka þátt í keppni og leik með okkur. Fyrir þá sem þekkja til þessara móta verður keppnin mjög hefðbundin og helstu greinar verða á sínum stað.

Það er langt á Norðfjörð af höfuðborgarsvæðinu. Hefur það áhrif á þátttökuna?
Við þekkjum þessa umræðu en ég segi að í þessum mótum felist tækifæri til að koma á staði sem fólk heimsækir ekki dagsdaglega og upplifa ævintýri í nýju samfélagi. Við vitum þegar af fjölmennum hópi Ísfirðinga sem hefur boðað komu sína. Þeir ætla að sigla til Færeyja með Norrænu viku fyrir mótið og koma svo til baka í þann mund sem mótið hefst.

Mótið er haldið samhliða lokum gönguvikunnar í Fjarðabyggð. Hvernig sérðu fyrir þér að þessir viðburðir fari saman?
Mér finnst spennandi að tvinna mótið saman við gönguvikuna og trúi að það muni efla báða viðburðina. Mótið dregur að fólk sem gæti haft áhuga á að fara í fjallgöngur og öfugt. Við sjáum einnig fyrir okkur samstarf um skemmtidagskrá. Gönguvikan hefur staðið fyrir myndarlegum kvöldvökum og mögulega gæti ein þeirra verið í Neskaupstað yfir mótshelgina. Það eru ýmis tækifæri til staðar og allir eru jákvæðir fyrir samstarfinu.

Fyrir hverju ert þú sjálfur spenntastur varðandi mótið í Neskaupstað?
Ég hef alltaf gaman af því að hitta fólk. Þetta snýst ekki bara um að koma til að horfa á einhverja íþróttakeppni heldur að hittast, spjalla og hafa gaman með fólki. Svo keppir hver og einn á sínum forsendum.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok