Hreinn í Heiðurshöll ÍSÍ

Hreinn Halldórsson var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ á Íþróttamanni ársins þann 29. desember árið 2018.

Hreinn Halldórsson er fæddur árið 1949 og hóf fljótlega að leggja stund á kúluvarp. Árangur hans vakti snemma athygli og gaf Ómar Ragnarsson honum viðurnefnið, „Strandamaðurinn sterki“ en það viðurnefni átti eftir að festast við Hrein.

Árið 1976 var Hreinn kjörinn Íþróttamaður ársins í fyrsta sinn, en það ár bætti hann Íslandsmetið í kúluvarpi og keppti á Ólympíuleikunum í Montreal. Hann hlaut þá 79 stig af 80 mögulegum í kjörinu á Íþróttamanni ársins.

Árið 1977 vann Hreinn sitt fræknasta afrek þegar hann varð Evrópumeistari innanhúss í San Sebastian á Spáni. Þar kastaði hann kúlunni 20,59 metra og skákaði meðal annars Geoff Capes, margföldum Evrópumeistara og Vladislaw Komar, pólska Ólympíumeistaranum frá 1972. Hreinn varð um leið fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í frjálsíþróttum í 27 ár. Sama ár bætti Hreinn Íslandsmetið í kúluvarpi þegar hann kastaði 21,09 metra á móti í Stokkhólmi, met sem stóð í þréttán ár.

Hreinn var vitaskuld valinn Íþróttamaður ársins 1977 og hlaut nafnbótina í þriðja sinn árið 1979. Það ár átti hann sjötta besta afrek í heiminum þegar hann varpaði kúlunni 20,69 metra. Á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 hafnaði Hreinn í 10. sæti. Hreinn lagði kúluna á hilluna árið 1982.

Hreinn var um tíma einn þekktasti strætisvagnastjóri Reykjavíkur en hefur síðustu áratugi verið búsettur á Egilsstöðum þar sem hann hefur haft umsjón með íþróttamannvirkjum á Egilsstöðum og í Fellabæ.

Hreinn hlaut starfsmerki UÍA og silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín fyrir íþróttahreyfinguna á þingi UÍA árið 2012. Hreinn hefur árum saman starfað ötullega fyrir frjálsíþróttahreyfinguna og staðið vaktina í kastkeppni Sumarhátíðar auk þess að vera ávallt tilbúinn að leiðbeina ungum kösturum.

Hreinn er þriðji UÍA maðurinn til að vera tekinn inn í höllina á eftir Vilhjálmi Einarssyni og Skúla Óskarssyni.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ