Úrslitaleikur Launaflsbikarsins í kvöld
UMFB og BN leika til úrslita í bikarkeppni UÍA og Launafls í knattspyrnu í kvöld. Búast má við markaleik miðað við fyrri leik liðanna í sumar.
Sjö lið hófu keppni í júní en ríkjandi meistarar Leiknis drógu sig fljótlega úr keppni. Sex lið spiluðu því einfalda umferð og svo undanúrslit.
BN vann þar efsta lið deildarkeppninnar Spyrnu 3-7 en UMFB vann Skúmhött 4-2. Liðin úr öðru og fjórða sæti leika því til úrslita í kvöld.
Búast má við markaleik ef marka má úrslitin í fyrri leik liðanna í lokaumferð deildarinnar. UMFB vann hann 14-8. Skrifstofa UÍA sá sig tilneydda til að hringja símtöl til að staðfesta tölurnar.
Auk þeirra liða sem þegar hafa verið nefnd áttu Einherji og Austri lið í keppninni í ár.
Úrslitaleikurinn hefst á Fellavelli klukkan 19:30 í kvöld. Því miður hefur engin sjónvarpsstöð sýnt áhuga á að kaupa útsendingarréttinn þannig þeir sem vilja sjá gæða fótbolta verða að gjöra svo vel og mæta á völlinn.