Höttur svartir unnu Bólholtsbikarinn
Liðið Höttur svartir vann Bólholtsbikarinn í körfuknattleik eftir úrslitaleik gegn Egilsstaðanautunum. Höttur oldboys varð í þriðja sæti.
Fimm lið spiluðu deildakeppnina í vetur en fjögur þeirra léku í úrslitakeppninni í íþróttahúsinu á Egilsstöðum þann 21. apríl.
Í fyrri undanúrslitum unnu Höttur svartir oldboys 57-50 en í hinum lögðu Egilsstaðanautin Fjarðabyggð 60-57.
Oldboys unnu Fjarðabyggð 59-58 í leik um þriðja sætið með að skora síðustu fimm stigin. Sigur svartra á Egilsstaðanautunum var öllu öruggari, 51-46.
Þá fékk Einar Bjarni Helgason verðlaun fyrir að vera stigahæsti leikmaður keppninnar í vetur með 179 stig.