Helstu tíðindi af 68. þingi UÍA

68. Sambandsþing UÍA var haldið í Fjarðarborg Borgarfirði eystra laugardaginn 14. apríl. Til fundarins mættu 46 fulltrúar frá 19 félögum.

Í starfi sambandsins á síðasta ári bar hæst Unglingalandsmótið á Egilsstöðum, sem gekk einstaklega vel. Tap varð á rekstri sambandsins upp á tæpa milljón en eignastaða þess er sterk.

Ein breyting varð á stjórn sambandsins, Davíð Þór Sigurðarson formaður Hattar kom inn sem varamaður fyrir Hlöðver Hlöðversson. Gunnar Gunnarsson var endurkjörinn formaður og með honum í stjórn sitja Jósef Auðunn Friðriksson, Pálína Margeirsdóttir, Auður Vala Gunnarsdóttir og Benedikt Jónsson. Auk Davíðs eru í varastjórn Þórir Steinn Valgeirsson og Guðbjörg Agnarsdóttir.

Fimm umræðuhópar voru á fundinum, einn um kynferðislega áreitni og ofbeldi í íþróttum, annar um sjálfboðaliða á Sumarhátíð, sá þriðji um framtíð hátíðarinnar, fjórði um samgöngumál og fimmti um nýtt Landsmót UMFÍ.

Fyrir fundinum lá ályktun um samgöngumál sem var samþykkt svohljóðandi:

„68. Sambandsþing UÍA lýsir yfir vonbrigðum af þróun ferðakostnaðar íþróttahreyfingarinnar. Í nýjum samningi ÍSÍ og Air Iceland Connect er minni sveigjanleiki þar sem fargjöld einstaklinga hafa verið afnumin en í þeirra stað komnir fastir afslættir á hvern fluglegg. Þetta rýrir möguleika einstaklinga til þátttöku í keppni og félagsstarfi. Að þurfa að sækja kóða á skrifstofu ÍSÍ fyrir hvert flug eykur einnig flækjustig flugbókana. Þingið hvetur stjórn ÍSÍ til að tryggja aukinn sveigjanleika í bókunum og leita leiða til að lækka ferðakostnað landsbyggðarfélaga.“

Þá var samþykkt tillaga sem lögð var fram á fundinum af Örvari Jóhannssyni, nýjum formanni Hugins Seyðisfirði, þar sem hvatt er til aukningar framlaga í ferðasjóð íþróttahreyfingarinnar.

Önnur tillaga sem kom fram á fundinum, frá Davíð Þór, var um áhyggjur af ósamræmi milli framlaga ríkisins til sveitarfélaga sem halda landsmót og hvatt til aukningar í landsmótssjóð.

Að lokum voru samþykktar tillögur þar sem sveitarfélögum eru færðar þakkir fyrir stuðning við íþrótta- og ungmennastarf í fjórðungnum og önnur þar sem öllum þeim sem komu að Unglingalandsmóti er þakkað fyrir samstarfið.
Undir lok þings skapaðist mikil umræða um hvernig félög skrá iðkendur og skilgreina í félagakerfi íþróttahreyfingarinnar. Þá var samþykkt að næsta sambandsþing verði á Stöðvarfirði í umsjá Súlunnar en félagið fagnar 90 ára afmæli sínu í ár.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ