Helstu tíðindi af 68. þingi UÍA

68. Sambandsþing UÍA var haldið í Fjarðarborg Borgarfirði eystra laugardaginn 14. apríl. Til fundarins mættu 46 fulltrúar frá 19 félögum.

Í starfi sambandsins á síðasta ári bar hæst Unglingalandsmótið á Egilsstöðum, sem gekk einstaklega vel. Tap varð á rekstri sambandsins upp á tæpa milljón en eignastaða þess er sterk.

Ein breyting varð á stjórn sambandsins, Davíð Þór Sigurðarson formaður Hattar kom inn sem varamaður fyrir Hlöðver Hlöðversson. Gunnar Gunnarsson var endurkjörinn formaður og með honum í stjórn sitja Jósef Auðunn Friðriksson, Pálína Margeirsdóttir, Auður Vala Gunnarsdóttir og Benedikt Jónsson. Auk Davíðs eru í varastjórn Þórir Steinn Valgeirsson og Guðbjörg Agnarsdóttir.

Fimm umræðuhópar voru á fundinum, einn um kynferðislega áreitni og ofbeldi í íþróttum, annar um sjálfboðaliða á Sumarhátíð, sá þriðji um framtíð hátíðarinnar, fjórði um samgöngumál og fimmti um nýtt Landsmót UMFÍ.

Fyrir fundinum lá ályktun um samgöngumál sem var samþykkt svohljóðandi:

„68. Sambandsþing UÍA lýsir yfir vonbrigðum af þróun ferðakostnaðar íþróttahreyfingarinnar. Í nýjum samningi ÍSÍ og Air Iceland Connect er minni sveigjanleiki þar sem fargjöld einstaklinga hafa verið afnumin en í þeirra stað komnir fastir afslættir á hvern fluglegg. Þetta rýrir möguleika einstaklinga til þátttöku í keppni og félagsstarfi. Að þurfa að sækja kóða á skrifstofu ÍSÍ fyrir hvert flug eykur einnig flækjustig flugbókana. Þingið hvetur stjórn ÍSÍ til að tryggja aukinn sveigjanleika í bókunum og leita leiða til að lækka ferðakostnað landsbyggðarfélaga.“

Þá var samþykkt tillaga sem lögð var fram á fundinum af Örvari Jóhannssyni, nýjum formanni Hugins Seyðisfirði, þar sem hvatt er til aukningar framlaga í ferðasjóð íþróttahreyfingarinnar.

Önnur tillaga sem kom fram á fundinum, frá Davíð Þór, var um áhyggjur af ósamræmi milli framlaga ríkisins til sveitarfélaga sem halda landsmót og hvatt til aukningar í landsmótssjóð.

Að lokum voru samþykktar tillögur þar sem sveitarfélögum eru færðar þakkir fyrir stuðning við íþrótta- og ungmennastarf í fjórðungnum og önnur þar sem öllum þeim sem komu að Unglingalandsmóti er þakkað fyrir samstarfið.
Undir lok þings skapaðist mikil umræða um hvernig félög skrá iðkendur og skilgreina í félagakerfi íþróttahreyfingarinnar. Þá var samþykkt að næsta sambandsþing verði á Stöðvarfirði í umsjá Súlunnar en félagið fagnar 90 ára afmæli sínu í ár.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok