Fjögur fengu starfsmerki UÍA
Fjórir einstaklingar fengu starfsmerki UÍA fyrir vel unnin störf á sambandsþingi UÍA á Borgarfirði eystra á laugardag.
Ásgrímur Ingi Arngrímsson, UMFB
Ásgrímur Ingi var formaður UMFB frá árinu 1997 til 2014 og driffjöðrin í margvíslegu starfi félagsins, meðal annars uppbyggingu sparkhallar á Borgarfirði. Eins má nefna framlag Ásgríms Inga til leiklistar- og menningarstarfs á vegum UMFB.
Arngrímur Viðar Ásgeirsson, UMFB
Arngrímur Viðar hefur í gegnum tíðina komið að margvíslegu starfi UMFB. Þá var hann gjaldkeri UÍA á árunum 2001-2008.
Bryndís Snjólfsdóttir, UMFB
Bryndís var meðal þeirra sem leiddu starf UMFB á níunda og tíunda áratugnum. Borgfirðingar muna eftir að hún var ætíð tiltæk þegar á þurfti að halda.
Davíð Þór Sigurðarson, Hetti
Davíð Þór var aðeins 26 ára gamall þegar hann tók við formennsku í íþróttafélaginu Hetti árið 2009 og hefur gegnt henni síðan þá. Davíð hefur einnig verið lykilmaður í Unglingalandsmótunum 2011 og 2017.