Frá stjórn UÍA til upplýsingar vegna #metoo/#jöfnumleikinn
Frá stjórn UÍA til upplýsingar vegna #metoo/#jöfnumleikinn
Fyrir þremur vikum birtust frásagnir kvenna innan íslensku íþróttahreyfingarinnar af kynferðislegu ofbeldi. Frásagnirnar birtast undir yfirskriftinni #jöfnumleikinn og eru hluti af hinni alþjóðlegu #MeToo bylgju. Frásagnirnar eru sláandi og kalla á viðbrögð.
Skrifstofa UÍA hefur undanfarnar vikur framsent fræðsluefni frá UMFÍ og ÍSÍ sem tengist þessari umræðu. Eins vísum við á fagráð Æskulýðsvettvangsins, sem við eigum aðild að í gegnum UMFÍ. Þar eru hlutlausir sérfræðingar sem taka á málum sem upp kunna að koma.
Í tengslum við þessa umræðu hefur verið hvatt til þess að íþróttafélög setji sér siðareglur, hegðunarviðmið og komi upp áætlunum til að bregðast við og koma í veg fyrir hvers kyns ofbeldi innan sinna raða.
Menntamálaráðherra hefur skipað starfshóp með forsprökkum #jöfnumleikinn og fulltrúum UMFÍ og ÍSÍ. Starfshópurinn á að skila af sér í mars. Við höfum þær upplýsingar að frá hópnum sé von á tillögum að reglum, áætlunum og stefnum sem íþróttafélög geta tekið upp og eins vonandi stuðning við að gera það. Við bindum vonir við vinnu starfshópsins og að hægt verði að vera með samræmd og fagleg viðbrögð í kjölfarið.
Við hvetjum ykkur til að hafa samband ef ykkur vantar aðstoð eða nánari upplýsingar.
F.h. stjórnar UÍA
Gunnar Gunnarsson, formaður