Viltu læra að nota þögnina?
UÍA, í samvinnu við ungversku ungmennasamtökin GYIÖT, býður upp á þrjú sæti fyrir áhugasama á námskeiðið Sounds of Silence í Ungverjalandi í byrjun október.
Aðaltilgangur námskeiðsins verður að kenna leiðtogum í æskulýðsstarfi að nýta þögnina á meðvitaðan hátt sem samskiptamáta á ólíka vegu, við þjálfun, kennslu, hugleiðslu, einbeitingu og til að segja frá.
Krafa er um að umsækjendur hafi náð 18 ára aldri og hafi gott vald á ensku.
Námskeiðið verður haldið dagana 4. – 10. október í smábænum Holloko sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Íbúar þorpsins eru ekki nema um 400 talsins en það byggðist upp sem varðstöð á miðöldum eftir innrás Mongóla. Það er í tveggja tíma fjarlægð norðaustur af höfuðborginni Búdapest.
Ferðastyrkur Íslendinga eru 530 evrur, um 66 þúsund krónur á núverandi gengi. Þátttökugjald er 30 evrur, tæplega 4.000 krónur.
Skrifstofa UÍA verður þátttakendum innan handar um ferðatilhögun.
Nánari upplýsingar um námskeiðið ásamt umsóknareyðublaði eru hér.