Ásmundur Hálfdán útnefndur íþróttamaður UÍA

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, glímumaður úr Val á Reyðarfirði, var útnefndur íþróttamaður ársins 2016 hjá sambandinu á þingi þess sem fram fór á Reyðarfirði. Ásmundur varð á árinu fyrsti keppandinn frá UÍA til að vinna Grettisbeltið.

Auk þessa æðsta titils íslenskrar glímu vann Ásmundur þá titla sem í boði voru hér heima auk þess að verða skoskur og enskur meistari í backhold. Þá var hann bæði útnefndur íþróttamaður Vals og Fjarðabyggðar.

En Ásmundur er ekki bara sterkur á glímuvellinum heldur líka utan hans. Í rökstuðningi sem fylgdi tilnefningu á honum til verðlaunanna frá Val segir að Ásmundur sé metnaðarfullur og viljasterkur, en jafnframt algjör öðlingur og hvers manns hugljúfi, kurteis og heiðarlegur.

Ásmundur sé vinsæll þjálfari hjá yngri iðkendum enda léttur í lund og með skemmtilegar æfingar. Hann sé ætíð tilbúinn að hjálpa við hvers kyns verkefni sem koma upp og varða glímuna, bæði hjá UÍA og Glímusambandinu, en hann hefur meðal annars verið fenginn til að vera fararstjóri með unglinga á mótum erlendis. Ásmundur hefur stundað sína íþrótt í ein 16 ár.

Ásmundur komst ekki á þingið þar sem hann var staddur á Selfossi þar sem Íslandsglíman fór fram og hann varði Grettisbeltið. Foreldrar hans, Ásmundur Ásmundsson og Sigurbjörg Hjaltadóttir, tóku við verðlaununum fyrir hans hönd.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ