Færðu Hildi gjöf frá Stefáni Má

Fulltrúar Þróttar Neskaupstað færðu Hildi Bergsdóttur, sem lét af störfum framkvæmdastjóra UÍA fyrir mánuði, gjöf sem gerð var að ósk Stefáns Más Guðmundssonar, formanns Þróttar á þingi UÍA á Reyðarfirði í gær. Stefán Már var bráðkvaddur um miðjan marsmánuð.

Gripurinn, sem gerður var í FabLabi Verkmenntaskóla Austurlands er ljós með myndum af íþróttamönnum úr öllum þeim greinum sem stundaðar eru innan Þróttar: sundi, blaki, knattspyrnu, karate og frjálsíþróttum.

Ljósinu fylgja þakkir til Hildar fyrir samstarfið á liðnum árum og neðan í því kemur fram að það hafi verið gert að beiðni Stefáns Más.

Stjórn UÍA þakkaði Hildi einnig fyrir vel unnin störf og hún notaði tækifæri á þinginu til að þakka fyrir sig.

Kæru félagar. Mig langaði bara rétt til að fá að stökkva hér á svið og segja nokkur orð á þessum tímamótum.

Þetta hafa verið afar lærdómsrík sjö ár þar sem ég hef fengið að takast á við æði mörg ólík og spennandi verkefni. Veganestið sem lagt var upp með í sum þessara verkefna voru nánast eingöngu framkvæmdagleði og jafnvel dass af klikkun... en ég hef verið svo heppin að hafa haft einvala lið í stjórnum UÍA mér innan handar og yfirleitt hefur því ræst blessunarlega úr.

Starfið hefur kennt mér ótal margt og ég stíg frá borði með fangið fullt af dýrmætri reynslu og góðum minningum.

Ég hef kynnst fjórðungunum mínu æði vel og flækst um hann á ýmsa fundi, viðburði eða með farandþjálfunarbílinn fullan af frjálsíþróttadóti. Ég hef kynnst og fengið að starfa með urmul af ólíku en góðu fólki á öllum aldri, sem hefur átt það sameiginlegt að vilja bæta nærumhverfi sitt og samfélag með íþrótta- og ungmennastarfi ýmiskonar.

Ég hef séð stór verkefni verða að veruleika með samtakamætti og hugsjónir einar að vopni. Ég hef fengið að upplifa gleðina í andlitum barna sem eru að uppgötva hversu skemmtilegt er að stunda íþróttir í góðum félagsskap.

Og ég hef fengið tækifæri til að skapa aðstæður sem hafa gefið fólki færi á að sigrast á sjálfum sér í gegnum ýmiskonar áskoranir, hvert heldur sem er að standa á erlendri grundu í framandi menningu í ungmennaskiptaverkefni, takast á við nýjan félagsskap og óvænt ævintýri í frjálsíþróttaskólanum eða komast allan hringinn í Tour de Orminum. Íþróttir og ungmennastarf geta nefnilega kennt okkur svo margt um sjálfan okkur og lífið.

Og ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að eiga hlutdeild í þessu öllu.

Ester mín, þér óska ég alls hins allra besta og einu get ég lofað þér.....þetta verður stuð!

Bestu þakkir fyrir samstarfið öllsömul.

Áfram UÍA, Áfram Austurland....Takk fyrir mig!

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok