Átta hlutu starfsmerki UÍA
Átta einstaklingar sem starfað hafa dyggilega fyrir Ungmennafélagið Val á Reyðarfirði árum saman voru í gær sæmdir starfsmerki UÍA á 67. þingi sambandsins sem haldið var í Grunnskólanum á Reyðarfirði.
Fyrir þingið höfðu aðeins fjórir Reyðfirðingar hlotið starfsmerkið. Aðalsteinn Eiríksson, sem var meðal þeirra þriggja sem hlutu starfsmerki þegar þau voru fyrst afhent árið 1979. Ásgeir Metúsalemsson, Þóroddur Helgason og Sigurbjörg Hjaltadóttir.
Dísa Mjöll Ásgeirsdóttir hefur unnið ötullega í knattspyrnuráði Vals undanfarin ár og meðal annars skipulagt allt í kringum dósasafnanir deildarinnar árum saman. Hún er starfandi formaður ráðsins, fulltrúi Vals í yngri flokkum Fjarðabyggðar og var ein af driffjöðrunum þegar Valur hélt 17. júní fyrir Fjarðabyggð árið 2015.
Guðrún Linda Hilmarsdóttir hefur starfað í skíðaráði Vals árum saman og var um tíma formaður þess. Hún hefur verið lykilmanneskja í fjáröflunum ráðsins, meðal annars með að skipuleggja dósasafnanir og var ein af driffjöðrunum þegar Valur hélt 17. júní fyrir Fjarðabyggð 2015.
Ásmundur Ásmundsson er meðal þeirra sem hvað ötullegast hafa unnið að framgangi glímunnar á Reyðarfirði, meðal annars alið upp fyrsta Grettisbeltishafa UÍA. Ásmundur var árum saman formaður glímuráðs en lét af því embætti árið 2014.
Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir gegndi um árabil starfi formanns Ungmennafélagsins Vals og tók sem slíkur virkan þátt í fundum á vegum UÍA. Sigríður Hrönn hefur einnig sinnt störfum fyrir knattspyrnuna í Fjarðabyggð og sat í knattspyrnuráði Vals.
Jóhann Eðvald Benediktsson var formaður knattspyrnuráðs Vals og fulltrúi félagsins í yngriflokka ráði Fjarðabyggðar. Hann lét af formennsku í ráðinu árið 2014 og var þar meðal lykilmanna í að byggja upp samstarf innan sveitarfélagsins.
Helga Benjamínsdóttir tilheyrir fólkinu á bakvið tjöldin. Hún hefur starfað innan knattspyrnuráðs og þótt hún hafi aldrei verið í fremstu röð hefur hún alltaf verið boðin og búin til að hjálpa þegar þess hefur þurft.
Það sama má segja um Sigurbjörgu Bóasdóttur sem starfað hefur innan glímuráðs Vals. Það þarf að baka, það þarf að standa sjoppuvaktir, það þarf að gera þetta. Svarið nei heyrist sjaldan úr þeirri átt.
Guðjón Magnússon er einn af þeim sem unnið hafa að framgangi glímuíþróttarinnar á Reyðarfirði árum saman. Hann hefur vakið athygli á Unglingalandsmótum UMFÍ þar sem hann skartar sérprjónaðri UÍA lopapeysu, þeirri einu sem vitað er um í heiminum.