Þóroddur, Sigurbjörg og Gunnar sæmd starfsmerki UMFÍ
Þóroddur Helgason og Sigurbjörg Hjaltadóttir frá Val á Reyðarfirði og Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, voru í gær sæmd starfsmerki Ungmennafélags Íslands á 67. sambandsþingi UÍA sem haldið var í Grunnskólanum á Reyðarfirði.
Þóroddur hefur verið lengi verið í forsvari fyrir glímuna sem er aðalsmerki íþróttamanna frá Reyðarfirði. Hann hefur hvatt unga iðkendur áfram og verið ódrepandi í að halda merki greinarinnar á lofti. Hann hefur meðal annars verið greinastjóri glímu á Unglingalandsmóti, bæði á sambandssvæði UÍA en einnig utan þess. Þóroddur segir aldrei nei þegar beðið er um viðvik sem viðkemur glímunni og því viðhorfi hefur hann smitað til nýrrar kynslóðar.
Sigurbjörg var um áraraðir í stjórn Ungmennafélagsins Vals á Reyðarfirði og var þar meðal annars gjaldkeri. Gjaldkerastörf hennar ná reyndar víða um fjórðunginn, sumir hafa kallað hana gjaldkera Austurlands en hún hefur séð um fjármál yngri flokka Fjarðabyggðar í knattspyrnu auk þess að aðstoða önnur félög. UÍA hefur notið góðs af kröftum hennar en hún hefur verið meðal skoðunarmanna reikninga sambandsins.
Gunnar kemur úr UMF Þristi þar sem hann var formaður 2004-2007. Hann hefur setið í stjórn UÍA frá 2005, þar af sem formaður frá 2012. Gunnar var í varastjórn UMFÍ 2009-2011 og í aðalstjórn frá 2013 auk annarra trúnaðarstarfa fyrir sambandið.
Það voru Örn Guðnason, varaformaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, sem afhentu merkin.