Pálína og Benedikt í stað Reynis og Elsu
Tvær breytingar urðu á aðalstjórn UÍA á þingi sambandsins í gær og tvö ný andlit til viðbótar eru í varastjórn. Á þinginu var meðal annars tekin ákvörðun um meðstöfun afgangs, ef af verður, af Unglingalandsmótinu í sumar.
Pálína Margeirsdóttir frá Fáskrúðsfirði og Benedikt Jónsson frá Egilsstöðum koma ný inn í stjórnina í stað Reynis Zoega og Elsu Guðnýjar Björgvinsdóttur, sem bæði höfðu verið í stjórninni frá 2015. Pálína er reyndar ekki óvön stjórnarsetunni því hún var í stjórn 2015-16.
Gunnar Gunnarsson var endurkjörinn formaður. Auk hans eru Jósef Auðunn Friðriksson og Auður Vala Gunnarsdóttir áfram í aðalstjórn.
Í varastjórn koma þau Þórir Steinn Valgeirsson Reyðarfirði og Guðbjörg Agnarsdóttir Egilsstöðum. Áfram verður þar Hlöðver Hlöðversson en Auður Ágústsdóttir og Rebekka Karlsdóttir ganga úr varastjórninni.
Sambandsþingið var haldið í 67. sinn í Grunnskólanum á Reyðarfirði í umsjónum UMF Vals. Foreldrar glímuiðkenda hjá félaginu sáu um veitingar. Til þingsins mættu um 60 þingfulltrúar frá 24 félögum auk gesta frá Ungmennafélagi Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
Af helstu þingmálum má nefna að samþykkt var að skipta mögulegum afgangi af Unglingalandsmótinu í sumar á þann hátt að 90% fari til aðildarfélaga UÍA í samræmi við vinnuframlag sjálfboðaliða þeirra en 10% renni til UÍA.
Unglingalandsmótið var eðlilega nokkuð fyrirferðamikið í dagskránni en í umræðuhópum var meðal leitað svara hvernig best sé að fá sjálfboðaliða til starfa við mótið og hvernig skapa megi stemmingu á sambandssvæðinu fyrir því.
Þá var felld tillaga, með öllum greiddum atkvæðum, um stuðning við niðurstöðu nefndar á vegum UMFÍ sem mæltist til þess að íþróttabandalögum yrði heimiluð innganga í UMFÍ, gegn ákveðnum reglum um lottóúthlutun og skiptingu fulltrúa á þingi sambandsins.
Starf sambandsins var með nokkuð hefðbundnu sniði síðasta starfsár. Rekstur þess gekk vel og var bókfærður hagnaður 2,5 milljónir króna. Á þinginu kom lögð fram ný tillaga og samþykkt um að stjórn yrði falið að móta stefnu um meðferð eigna UÍA.
Fjall UÍA árið 2017 er Hádegisfjall í Reyðarfirði og næsta þing verður haldið á Borgarfirði að ári í umsjón UMFB, en félagið er 100 ára í ár og verður dagskrá af því tilefni í sumar.
Elsu, Reyni, Auði og Rebekku eru hér með þakkað fyrir störf þeirra í þágu sambandsins.