Aðstæður skoðaðar fyrir ungmennaskipti á Írlandi
Fulltrúar UÍA dvöldust í síðustu viku hjá YMCA samtökunum í Cork & Cobh á suðurströnd Írlands til að kanna aðstæður fyrir ungmennaskipti í byrjun sumars.
Áformað er að fara með níu austfirsk ungmenn út um mánaðarmótin maí/júní og endurgjalda þar með heimsókn Íranna sem komu austur í ágúst í fyrra.
Dvalið verður úti í viku og verða bækistöðvar hópsins fyrstu dagana í útjarði Killarney, vinsæls ferðamannabæjar en til stendur að fara í göngu um Killarney þjóðgarðinn. Fulltrúarnir skoðuðu gistaðstæður og gengu hluta leiðarinnar.
Svæðið er einnig hluti af „Ring of Kerry“ sem er vinsælt svæði meðal ferðamanna.
Seinni hluta vikunnar verður varið í Cobh, 13 þúsund manna borgar í nágrenni Cork, næst stærstu borgar Írland þar sem búa álíka margir og á Íslandi öllu. Í Cobh verður unnið úr upplifuninni í Killarney og sett upp sýning um ungmennaskiptin.
Tækifærið verður einnig nýtt til að skoða borgina sem hvað þekktust er að hafa verið síðasta höfnin sem Titanic áði í áður en skipið fór í hina örlagaríku för vestur um haf. Bæði minningarreitur og safn eru um skipið sem heimsótt voru í ferðinni.
Skemmst er frá því að segja að aðstæður litu vel út og þau drög að dagskrá sem Írarnir lögðu frá eru afar metnaðarfull. Í veðrinu skiptust bókstaflega á skin og skúrir, eins og Írar eru vanir. Við því má búast áfram í maí en væntanlega töluvert hlýrra en í síðustu viku.
Í skoðunarferðina fóru Hildur Bergsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra UÍA og Gunnar Gunnarsson formaður sem verða fararstjórar í vor auk Þórunnar Valdísar Þórsdóttur, fulltrúa ungmennanna. Verkefnastjórar hjá YMCA undir forustu James Bilson tóku á móti þríeykinu auk þriggja ungmenna sem komu austur í fyrra og verða einnig með í sumar. Verkefnið er styrkt úr verkefnasjóði UMFÍ og af Evrópu unga fólksins/Erasmus+.