Stefán Már Guðmundsson: Kveðja frá UÍA

Við minnumst Stefáns Más sem framtakssams hugsjónamanns sem var afar ánægjulegt að kynnast og vinna með. Hann var leiftrandi af eldmóði, höfuðið uppfullt af hugmyndum og fylgdi því eftir með að láta hendur standa fram úr ermum.

Í gegnum samstarf Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) eigum við fjölda frábærra minninga um Stefán. Þegar frjálsíþróttaæfingar UÍA hófust í Neskaupstað vantaði ýmislegt upp á aðstöðuna en Stefán Már smíðaði kúluvarpshring og við lá að hann mætti með skófluna til að moka upp fyrir langstökksgryfjuna þótt hann haltraði um á hækjum eftir aðgerð.

Stefán Már virtist alltaf hafa tíma til að redda hlutunum, stórum sem smáum. Þegar bifreið UÍA læstist eftir æfingu á Norðfirði kortéri í Unglingalandsmót útvegaði hann far fyrir starfsmanninn í Egilsstaði, lét opna bílinn og kom honum svo uppeftir í kjölfarið. Öðru sinni, þá sem aðstoðarskólastjóri á Reyðarfirði, bauðst Stefán Már til að keyra starfsmanninn upp í Egilsstaði að loknu námskeiði út af illviðri á Fagradal.

Hann barðist fyrir jafnrétti og studdi við fjölgun íþróttagreina á Norðfirði. Hann tók virkan þátt í íþróttasamstarfi á Austurlandi, einkum í gegnum Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar. Hann gekk svo langt að keyra norður á Langanes til að sækja leikmenn þegar erfitt var að ná í lið.

Það er varla til það félagsstarf sem Stefán hefur ekki komið nálægt. Hann miðlaði af reynslu sinni, var tilbúinn að læra og afar þakklátur fyrir allt sem gert var í þágu íþrótta- og ungmennastarfs á Norðfirði. Stefán var virkur á fundum og þingum sambandsins við að fylgja eftir skoðunum sínum. Hann setti þær ákveðið en málefnalega fram og var alltaf til í umræðu um málin.

Stefán Már opnaði hús sitt fyrir gestum. Hann bauð í grjónagraut í hádeginu fyrir 90 ára afmæli Þróttar og tók á móti okkur fyrir viðtal í tímaritið Snæfell á aðventu, strax að loknum jólatónleikum karlakórsins. Í viðtalinu sagði hann frá ofvirkni sinni og lesblindu sem háði honum í námi. Hann var hreinskilinn með það og undir öllum tölvupóstum hans stóð: „P.S. undirritaður er lesblindur og geta því verið stafsetningarvillur i textanum.“ Hann lét ekki þessar raskanir halda aftur af sér og var því frábær fyrirmynd fyrir nemendur sína og annað ungt fólk.

Stefán Már hafði mikil áhrif á austfirskt íþróttastarf, skilur þar eftir sig stórt skarð og verður sárt saknað. Hugur okkar er hjá konu hans, Vilborgu og fjölskyldu.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks UÍA
Gunnar Gunnarsson, formaður
Hildur Bergsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok