Live-FEED; Lærdómur og lífstíðarvinir

Fjögur austfirsk ungmenni tóku fyrir skemmstu þátt í Erasmus + ungmennaskiptaverkefninu Live-FEED, sem fram fór í Caserta á Ítalíu. Þar sem áhersla var lögð á matarmenningu ólíkra þjóða, og hvernig matur og matarmenning hefur áhrif á margt í umhverfi okkar og samfélagi.

Auk Íslands voru ungmenni frá Tékklandi, Rúmeníu, Grikklandi, Georgíu, Bosníu Hersegovínu, Ítalíu og Jórdaníu og áttum við saman 8 ógleymanlega daga í Caserta. Eins og gefur að skila var þetta ótrúlega fjölbreyttur hópur sem hver um sig lagði fram sína siði, tungumál, matarmenningu og uppskriftir í nokkurs konar alþjóðlegan hrærigraut en eitt af markmiðum verkefnisins var að gera alþjóðlega matreiðslubók. Löndin kynntu hvert fyrir sig heimaslóðir sínar og íslenski hópurinn vann hug og hjörtu félaga með Íslandskynningunni en þar var boðið upp á víkingaklapp, óð til lýsisins, hugvekju um ástarpunga, þróttmikil og þokkafull glímutök, söng og dans tileinkaðan plokkfiski, og fræðslu um skyr.

,,Það voru lögð fyrir okkur margvísleg verkefni, við heimsóttum ítalskan matreiðslumenntaskóla þar sem við sáum ítalska matreiðslumeistara töfra fram pasta frá grunni af stakri ástríðu og leikni, við tókum átt í smiðju um skapandi hugsun, skoðuðum helsta stolt borgarinnar höllina, í Casetra sem er sögð heldur stærri og glæsilegri en höllin í Versölum, og svo voru auðvitað ótal hópeflisleikir og ýmiskonar landkynningar. Íslenska hópnum gafst einnig færi á að skoða sig þó nokkuð um á Ítalíu og heimsótti Róm, Napólí og Pompeii. Það var afar áhugavert og lærdómsríkt að kynnast menningu, mat og siðum annara þjóða, sjá hvað margt er ólíkt en í menningu okkar en samt er svo margir sammannlegir þættir og auðvelt að mynda tengsl þvert á landamæri, ólík trúarbrögð og menningu. Íslenski hópurinn náði til að mynda mjög góðum tengslum við jórdanska hópinn, sem sagði okkur sögur af sandi, úlföldum, sýrlenskum flóttamönnum og ógninni af ISIS á meðan við fræddum þau um snjó, jökla og vetraríþróttir" segir Hildur Bergsdóttir fararstjóri UÍA hópsins.

,,Ferðin var ótrúlega skemmtileg og lærdómsrík og skilur eftir sig góðar minningar en fyrst og fremst vini til lífstíðar" segir Ásta Evlalía Hrafnkellsdóttir ein þátttakanda.

UÍA hópurinn í Pompeii; Emma Björk Hjálmarsdóttir, Unnur Arna Borgþórsdóttir, Ásta Evlalía Hrafnkellsdóttir og Benedikt Jónsson.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ