Hildur hættir hjá UÍA
Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra UÍA, lætur af störfum hjá sambandinu í lok febrúar. Hún tekur þá við starfi félagsráðgjafa í Menntaskólanum á Egilsstöðum.
Hildur kom til starfa haustið 2010 og hefur því gegnt starfinu í á sjöunda ár. Á þessum tíma hefur rekstur sambandsins verið afar jákvæður og starfið sérlega blómlegt.
Hildur hefur verið drifkraftur í fjölda verkefna, til dæmis að koma á hjólreiðakeppninni Tour de Orminum og ferðast um fjórðunginn í farandþjálfun á sumrin en fjöldi austfirskra ungmenna hafa kynnst henni á þann hátt.
Stjórn sambandsins þakkaði Hildi fyrir vel unnin störf á fundi sínum í gærkvöldi. Auglýst verður eftir nýjum framkvæmdastjóra á næstu dögum.