Samstarfssamningur um ULM 17 undirritaður

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum verslunarmannahelgina 2017. Forsvarsmenn Ungmennafélags Íslands, Fljótsdalshéraðs og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands hittust á Egilsstöðum á þriðjudag og skrifuðu undir samning þessa efnis.

 

Unglingalandsmót UMFÍ hefur verið haldið árlega um hverja verslunarmannahelgi síðan árið 1992 og er það orðið eitt af föstu liðunum í skipulagningu sumarsins hjá mörgum fjölskyldum og vinahópum sem vilja skemmta sér á heilbrigðan hátt yfir verslunarmannahelgi. Mótið er opið öllum ungmennum á aldrinum 11-18 ára óháð því hvort þau eru skráð í ungmenna- eða íþróttafélag. Þátttakendur hafa í gegnum tíðina verið vel á annað þúsund og mótsgestir í kringum 10-15.000. Unglingalandsmót UMFÍ setur því mark sitt á bæjarlífið þar sem mótið hefur verið haldið hverju sinni. Sökum mannfjöldans sem búast má við að komi til Egilsstaða yfir mótahelgina verður að vanda undirbúning þess vel.

 


Íbúar Austurlands leggja sitt af mörkum

Búast má við góðu Unglingalandsmóti á Egilsstöðum næsta sumar. Ekki síst fyrir þær sakir að þar leggja íbúar sveitarfélaganna sitt af mörkum til að gera gott mót. Auk þess hefur markvisst verið kallað eftir sjónarmiðum ungs fólks við undirbúning og skipulagningu mótsins. Markmiðið er að gera alla vinnu við mótið markvissari og ábyrgðarsviðið skýrara.„Samningurinn og Unglingalandsmótið er okkur ánægjuefni. Við, íbúarnir hér í Fljótdalshéraði, horfum með tilhlökkun til þess að vinna að undirbúningi mótsins með fulltrúum UMFÍ og UÍA. Við vitum að það muni takast vel líkt og raunin var 2011,“ segir Björn Ingimundarson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.


Margir muna eftir Unglingalandsmóti UMFÍ

„Við hjá UÍA hlökkum til að takast á við þetta verkefni sem Unglingalandsmótið er enda er okkur og þátttakendum vel lukkað mót 2011 enn í fersku minni. Þótt við vinnum náið með Fljótsdalshéraði og mótið sé þar er UÍA svæðið stærra og við sækjum sjálfboðaliða og keppendur til að halda mótið um allt Austurland. Sú vinna er nú í gangi og höfum við farið í nokkrar heimsóknir til að kynna mótið þar sem okkur var afar vel tekið,“ segir Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA.

Mynd: Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, Björn Ingimundarson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, og Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, glaðir eftir undirritun samstarfssamningsins á Egilsstöðum á þriðjudag.

Frétt af heimasíðu Austurfréttar, austurfrett.is

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ