ULM 2017, unga fólkið passar að ekki verið hent í dansiball með Geirmundi og Álftagerðisbræðrum

Það eru 10 mánuðir fram að Unglingalandsmóti 2017 sem haldið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgi. Það er óhætt að segja að það sé kominn fiðringur í mannskapinn, undirbúningur jafnt hjá sveitarfélagi og UÍA kominn í fullan gang og gengur vel. Unglingalandsmótsnefnd sem skipuð er fulltrúum frá UÍA og Fljótsdalshéraði, fundaði á dögunum ásamt Ómari Braga Stefánssyni framkvæmdastjóra mótsins, þar var meðal annars farið yfir hugmyndir að keppnisgreinum mótsins, sem er óhætt að fullyrða að verði fjölbreyttar og skemmtilegar.

 

,,UÍA og Fljótsdalshérað héldu ULM árið 2011 á Egilsstöðum og búa að þeirri reynslu. Mótið 2011 tókst afar vel og var gríðarleg lyftistöng fyrir ungmenna-og íþróttastarf í fjórðungnum, það var mjög vel sótt af heimamönnum og eftir mótið 2011 hefur UÍA jafnan státað af fjölmennu og myndarlegu keppnislið á Unglingalandsmótum, en fyrir mótið hérna heima var þátttakan að austan dræm og einskorðaðist við einstaka greinar. Við hlökkum því til við að takast á við þetta flotta og mikilvæga verkefni með aðildarfélögunum okkar, við áttum góðan hugarstorm með okkar fólki á síðasta sambandsþingi UÍA og þar komu fram margar spennandi hugmyndir sem verður gaman að hrinda í framkvæmd. Við stefnum að því að bjóða uppá fjölbreyttar keppnisgreinar sem taka mið af því öfluga íþróttastarfi sem unnið er um allan fjórðung, lifandi og yfirgripsmikla afþreyingardagskrá og bara almenna kæti. Samstarfið við Fljótsdalshérað gengur afar vel enda gagnkvæmur vilji til að gera þetta vel og af gleði. Ungt fólk á svæðinu verður virkjað til að aðstoða við afþreyingardagskrá og tryggja að við fullorðna fólkið hendum ekki bara í dansiball með Geirmundi og Álftagerðisbræðrum. Ómar Bragi fullyrðir að spáin fyrir helgina sé góð svo við erum bara bjartsýn, sæl og þakklát fyrir að vera treyst fyrir þessu þýðingarmikla verkefni" segir Hildur Bergsdóttir framkvæmdastýra UÍA. 

Mynd: Af fundi ULM nefndar; frá vinstri Ómar Bragi Stefánsson framkvæmdastjóri ULM og starfsmaður UMFÍ, Björn Ingimarsson bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði og formaður nefndar, Rebekka Karlsdóttir fulltrúi ungs fólks, Davíð Þór Sigurðarson formaður Hattar og svæðis- og þjónustustjóri, Aðalheiður Vilbergsdóttir formaður Vals og keppnisstjóri, Sigurður Óskar Jónsson, stjórnarmaður og fulltrúi UMFÍ, Hildur Bergsdóttir framkvæmdastýra UÍA og keppnisstjóri, Hreinn Halldórsson fulltrúi sveitarfélagsins og Óðinn Gunnar Óðinsson fulltrúi sveitarfélagsins. (Á myndina vantar Auði Völu Gunnarsdóttur afþreyingarstjóra, Guðbjörgu Agnarsdóttur fulltrúa ungs fólks og  Gunnar Gunnarsson ritara nefndarinnar. Einnig á enn eftir að skipa nokkur embætti innan nefndarinnar).

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok