Borðtennissambandið heimsótti Austurland
Borðtennissamband Íslands stóð nýverið fyrir kynningu á íþróttinni með námskeiði á Egilsstöðum. Aðalþjálfarinn var ánægður eftir helgina og vongóður um að hægt verði að byggja upp frekara borðtennisstarf út frá henni.
„Við fengum hér 13 krakka um helgina og þau voru rosalega áhugasöm. Það skín ánægjan úr hverju andliti,“ segir Bjarni Þ. Bjarnason, aðalþjálfari HK, sem kom austur ásamt Sigurði Val Sverrissyni, formanni Borðtennissambandsins. Námskeiðið var haldið í félagsmiðstöðinni Ný-ung á Egilsstöðum í samvinnu við Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands.
Borðtennissambandið hefur undanfarið staðið fyrir sambærilegum námskeiðum í öðrum landshlutum til að breiða út íþróttina. „Við höfum heimsótt stærstu þéttbýliskjarnana. Draumurinn er að vera með virkt borðtennisstarf í öllum landshlutum.“
Bjarni segir sambandið tilbúið að styðja við heimamenn þar sem áhugi sé fyrir hendi. Það sé síðan þeirra hvað gerist í framhaldinu. „Ef fólk vill þá komum við með námskeið og tökum púlsinn á áhuganum. Ef það er áframhaldandi vilji fyrir hendi þá getum við komið með námskeið fyrir leiðbeinendur og þá sem vilja stýra starfinu.“
Auk þess að þjálfa hjá HK keppir Bjarni með liðinu í efstu deild. „Ég hef stundað borðtennis grimmt í 38 ár. Ég var með hann sem hliðaríþrótt við fótbolta þar sem ég var í marki en þegar ég var 19 ára var mér sagt að ég væri of lítill í markið. Ég fór í fýlu og snéri mér að borðtennisnum.“
Bjarni lýsir borðtennis sem „bestu íþrótt í heimi“. Hann gefi ýmsa möguleika. Hægt sé að spila hann frá fimm ára aldri og upp í áttrætt, æfingar séu ekki kynjaskiptar. Hægt sé að spila einliða-, tvenndar- og tvíliðaleik, liðakeppni eða jafnvel æfa einn heima með veggnum. „Þú færð alltaf að snerta boltann og stjórnar því svolítið sjálfur hvað þú gerir, eftir því hversu mikið þú vilt leggja í þetta.“
Ekki skemmir félagsskapurinn fyrir en Bjarni hefur farið víða um heim í tengslum við borðtennisinn, bæði til að þjálfa og spila. Íþróttin veitir honum einnig tækifæri til að koma austur en hann þekkir ágætlega til á Seyðisfirði þar sem bróðir hans, Lárus, er sýslumaður. „Mér finnst alveg jafn gaman að fara til Egilsstaða og Japan. Það er alltaf gaman að hitta fólk sem hefur áhuga á íþróttinni minni.“