Unglingaflokkur Hattar varði Bólholtsbikarinn
Unglingaflokkur Hattar fagnaði sigri í bikarkeppni Bólholts og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) í körfuknattleik. Flokkurinn lagði Egilsstaðanautin 59-51 í úrslitaleik.
Úrslitakeppnin var haldið í íþróttahúsinu á Egilsstöðum á laugardag en þar léku einnig Fjarðabyggð og Sérdeildin.
Dagurinn byrjaði á leik Sérdeildarinnar og Unglingaflokksins í undanúrslitum sem strákarnir unnu 64-37. Í hinum undanúrslitaleiknum höfðu Egilsstaðanautin betur gegn Fjarðabyggð 75-68.
Bronsleikurinn varð afar spennandi og réðist að lokum á síðustu körfu leiksins en þar hafði Sérdeildin betur gegn Fjarðabyggð 50-49.
Unglingaflokkurinn hafði síðan tök á úrslitaleiknum allan tímann. Brynjar Grétarsson var stigahæstur leikmanna liðsins í úrslitaleiknum með 19 stig en Viðar Örn Hafsteinsson skoraði 32 fyrir Egilsstaðanautin. Viðar Örn fékk einnig viðurkenningu sem stigahæsti leikmaður keppninnar.
Myndir úr keppninni eru á Flickr-síðu UÍA.