Þokukennd ævintýraferð á Grænafell
Fölskvalausir fagnaðarfundir urðu á Grænafelli síðastliðið föstudagskvöld er Fjarðamenn og Héraðsmenn mættust þar í svarta þoku, en UÍA í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Náttúrustofu Austurlands stóðu fyrir göngu á fellið í tilefni af degi íslenskrar náttúru.
Um 30 Fjarðamenn gengu frá Grænafellsvelli og sóttist leiðin á toppinn nokkuð greiðlega. Þóroddur Helgason fór fyrir göngumönnum og fræddi um það sem fyrir augu bar. Gengið var upp með hinu ægifagra Geitarhúsagili og var þar margt að sjá, framan að en þegar ofar dró í fjalllið skall á með þoku og útsýni af toppnum var því ekkert. Þar var engu að síður glaðst saman, nesti snætt og ungmennafélagsandinn dreginn, en allir göngumenn drógu spjald með útskýringu á hugtakinu ungmennafélagsandi.
Um 30 Héraðsmenn gengu einnig á fjallið úr Fagradal, þar fór Guðrún Sóley Guðmundsdóttir í broddi fylkingar og naut fulltingis Skarphéðins Þórissonar frá Náttúrustofu Austurlands, sem fræddi göngufólk um grös og steina.
Þokan lagðist ekki síður yfir Héraðsmenn sem fetuðu upp hlíðar fjallasins hinu megin og sáu gönguhrólfar vart handa sinna skil á tímabili, það varð því úr að þeir gengu á nyrðri tind Grænafells, en fellið skartar tveim tindum og fóru Fjarðamenn á þann syðri. Þar sem þeim síðarnefndu lá nokkuð á að komast niður til að sjá sína menn sigra í Útsvari varð út að hluti hópsins fór niður sömu leið og þeir komu en aðrir héldu áfram í gegnum hnausþykka þokuna til móts við Héraðsmenn. Hóparnir tveir höfu kallast á dágóða stund í gegnum þokuna áður en þeir náðu saman og var þá haft á orði að viðlíka gleði hefði vart sést í fundum þessarra nágrannasveitarfélaga.
Hóparnir gengu síðan niður saman og drógu Héraðsmenn ungmennafélagsandann að sér þegar niður var komið.
Gaman var að sjá hve mörg börn voru í göngunni og hve fróðleiksfús þau voru um umhverfið sem fyrir augu bar. Aldrei er að vita nema ganga á Grænafell verði að árlegum viðburði á degi íslenskrar náttúru, en vonumst við þá til að hafa sólskin fremur en þoku með í för.
Þökkum við samstarfaaðilum okkar og samferðafólki skemmtilega göngu sem var viðburðarrík þrátt fyrir að ýmislegt hefði farið öðruvísi en ætlað var.
Á eftri myndinni má sjá hópinn sem fór frá Grænafellsvelli en á neðri myndinni þann sem lagði á stað úr Fagradal.