Myndir af Unglingalandsmóti UMFÍ FRJÁLSAR ÍÞRÓTTIR
Ótal skemmtilegar myndir af frjálsíþróttakeppni ULM eru nú komnar hér í myndasafnið.
Keppni hófst í blíðskaparveðri á föstudagsmorgunn og lauk, ekki í alveg jafn góðu veðri, á sunnudagseftirmiðdag. Ríflega 600 keppendur voru skráðir til leiks frá 27 íþróttafélögum og héraðssamböndum, hvaðanæva að, meira að segja mættu nokkrir Grænlendingar til leiks og léðu keppninni alþjóðlegan blæ.
Keppt var í átta aldursflokkum og í 10 greinum, en í fyrsta skipti var boðið upp á keppni í 200 m hlaupi og þrístökki á ULM. Hildur Bergsdóttir, Snorri Benediktsson og Sverrir Reynisson sérgreinastjórar stýrðu mótinu styrkum höndum en alls komu um 80 sjálfboðaliðar að framkvæmd mótsins dag hvern og sáu til þess að mótið gekk afar vel fyrir sig.
UÍA átti um 90 keppendur á frjálsíþróttavellinum og sýndu þeir margir hverjir góð tilþrif og skiluðu sambandinu meðal annars í hús sjö Unglingalandsmótsmeistara tiltlum auk fjölda silfur og brosnverðlauna. Í flokki 11 ára stúlkna sigraði Heiða Elísabet Gunnarsdóttir í langstökki, 60 m og 200 m hlaupum, Daði Fannar Sverrisson hampaði titlum í spjótkasti og hástökki 15 ára pilta og Heiðdís Sigurjónsdóttir fór með sigur af hólmi í 800 m hlaupi og þrístökki 15 ára stúlkna.
Óskum við frjálsíþróttafólkinu okkar innilega til hamingju með árangurinn og þökkum þeim frábæra þátttöku.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér.