Loksins vann BN Launaflsbikarinn: Vítakeppni annað árið í röð

Boltafélag Norðfjarðar (BN) vann í gærkvöldi Knattspyrnuakademíu Hornafjarðar (KAH) í úrslitaleik bikarkeppni Launafls og UÍA í knattspyrnu. Vítakeppni þurfti til annað árið í röð. Norðfirðingar fögnuðu ákaft í lokin enda hefur lið þeirra orðið í öðru sæti keppninnar undanfarin fimm ár.

Með hið beiska silfurbragð í munni mættu Norðfirðingar ákveðnir til leiks. Björn Ágúst Olsen Sigurðsson, akkerið á miðju þeirra í sumar, kórónaði glæsilegt sumar með að skora fyrsta markið á 20. mínútu þegar boltinn féll fyrir hann í teignum eftir hornspyrnu.

Norðfirðingar stjórnuðu fyrri hálfleiknum og verðskulduðu annað mark. Það kom ekki fyrr en á seinustu mínútu hálfleiksins og var af glæsilegri gerðinni. Bjarmi Sæmundsson lét þá vaða lengst utan af hægri kanti og knötturinn þandi út netmöskva Hornfirðinga.

Leikurinn snérist alveg við eftir leikhléið. Hornafjarðarliðið, sem er skipað heldur yngri leikmönnum, virtist heldur ferskara. Það flutti varnarlínuna hærra upp og pressaði ákaft á BN. Það bar árangur á 59. þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu eftir góða skyndisókn. Bragi Emilsson skoraði úr vítinu.

Hornfirðingar eygðu þarna möguleikann, efldu enn frekar sóknir sínar og nokkrum sinnum skall hurð nærri hælum við mark Norðfirðinga. Þeir stóðust samt áhlaupin þar til á 71. mínútu þegar markahrókurinn Ingi Steinn Þorsteinsson jafnaði leikinn.

Mikil spenna var á lokamínútunum en hvorugu liðinu tókst að skora sigurmarkið. Vörn Norðfirðinga þéttist nokkuð eftir að liðsstjórinn Gunnar Larsson skipti sér inn á.

Fjörið hélt áfram í framlengingunni. Á 97. mínútu barst boltinn til Örvars Hugasonar við vinstra vítateigshornið og hann smellti honum glæsilega með vinstri fæti upp í fjærhornið. Hornfirðingar fögnuðu gríðarlega enda hafði ekki verið mikið seinustu mínúturnar sem benti til yfirvofandi stórsóknar Norðfirðinga.

Hagur KAH vænkaðist enn frekar þegar dæmt þeim var dæmt víti þegar Ívar Sæmundsson, markvörður BN, braut á sóknarmanni KAH sem var kominn inn fyrir vörn Norðfirðinga. Bragi mætti aftur til að taka vítið en að þessu sinni varði Ívar frá honum.

Þar sluppu Norðfirðingar fyrir horn. Það dugði samt ekki, þá vantaði mark. Það kom á 110. mínútu þegar Vilhjálmur Freyr Hallsson slapp inn fyrir vörn KAH og lyfti boltanum snyrtilega fyrir markvörðinn Jóhann Berg Kiesel.

Dramatíkin var síður en svo búin. Á lokamínútu framlengingarinnar braut Jóhann á Alexander Frey Sigurðssyni, sóknarmanni BN og Jóhann Óskar Þórólfsson benti á vítapunktinn í þriðja sinn í leiknum. Til að taka spyrnuna mætti hinn hvíti Asamoah Gyan í líki Alexanders Freys því spyrna hans fór í samskeytin og yfir.

Þar með var ljóst að annað árið í röð réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni en í fyrra vann Hrafnkell Freysgoði keppnina eftir æsilega vítakeppni á móti Boltafélaginu. Þar réðust úrslitin í bráðabana en keppnin nú varð heldur styttri.

Hornfirðingar áttu á brattann að sækja eftir að hafa misnotað fyrstu tvær spyrnur sínar. Þótt þriðja spyrna Norðfirðinga færi forgörðum skipti það ekki máli. Alexander Freyr stillti sér upp til að taka fimmtu spyrnu BN og að þessu sinni brást honum ekki bogalistin, sendi markvörðinn í vitlaust horn og BN-menn hömpuðu loks Launaflsbikarnum.

Birkir Björnsson, Ungmennafélagi Borgarfjarðar (UMFB) varð markahæsti leikmaður keppninnar í ár með 10 mörk. Hann var einnig valinn besti leikmaðurinn í vali forráðamanna liðanna.

Myndir úr leiknum

Leikskýrsla leiksins

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ