Eldstæðið komið á sinn stað
Eldstæðið, þar sem landsmótseldurinn logar frá föstudagskvöldi fram að miðnætti á sunnudag, var komið á sinn stað á klettunum ofan við Vilhjálmsvöll á mánudagskvöld. Menn á vegum Þ.S. verktaka aðstoðuðu við verkið.Eldstæðið hefur ferðast víða að undanförnu. Upphaflega kom það austur í nóvember en síðan ákvað stjórn Ungmennafélags Íslands að efna til fyrsta landsmóts eldri ungmennafélaga. Þá þurfti að taka eldstæðið úr geymslunni á Egilsstöðum og senda norður á Hvammstanga.
Landsmótseldurinn logar á meðan landsmót stendur og þegar hann er slökktur er það tákn þess að mótinu sé lokið. Eldurinn var í fyrsta sinn tendraður á landsmóti UMFÍ í Borgarnesi 1997.
Oddur Hermannsson landslagsarkitekt á Selfossi hannaði eldstæðið sem hefur hlotið nafnið „Fjallasalur.“ Upp úr kyndilstæði í rúmlega tveggja metra hæð rísa 5 fjöll búin til úr kopar og stáli. Útlínur fjallanna standa sem einkennistákn landshluta Íslands. Snæfellsjökull er tákn Vesturlands og Vestfjarða, fyrir Norðurland stendur Hraundrangi í Öxnadal, Herðubreið er tákn miðhálendis, Snæfell tákn Austurlands og að lokum Hekla sem táknar Suðurland.
Í miðjum fjallasalnum teygir eldsloginn sig til himins og frá fjallsrótum fellur vatn til sjávar og þar innan um blakta fánalitir Ungmennafélags Íslands, hvítur og blár. Þannig er á táknrænan hátt dregin upp mynd af sjálfu Íslandi.