900 km á viku í farandþjálfun UÍA
Nú er farandþjálfuninni hjá UÍA lokið þetta sumarið en hefð hefur skapast fyrir því að henni ljúki á sumarhátíð UÍA og SVN. Þetta sumarið fengu Norðfjörður, Fáskrúðsfjörður, Stöðvafjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur og Vopnafjörður heimsókn frá hressum faranþjálfurum sem kenndu ýmist frjálsar eða fimleika. Aðstæður á þessum stöðum eru mismunandi og því reyndi á hugmyndaflug þjálfarana svo hægt væri að kenna duglegu iðkendunum okkar sem flestar greinar. Það hefur greinilega tekis vel og er árangur faranþjálfunarkrakkanna á Sumarhátíð til marks um það.
Bílaverkstæði Austurlands styrkti UÍA um bíl fyrir þetta verkefni og erum við þeim ævinlega þakklát fyrir það. Þegar tekin er saman vegalengdin sem ekin var í hverri viku bregður mörgum en hún er samtals rétt tæpir 900 kílómetrar. Á síðustu 4 vikum hafa farandþjálfarar, á bíl frá BVN, ekið því sem nemur öllum hringveginum nær þrisvar sinnum. Klikkun ... myndu kannski einhverjir segja, en við erum ánægð með árangurinn og vonum að þeir fjömörgu sem sóttu æfingar hjá okkur séu það líka.