Leiknir bregst við fréttaáskorun

Hér á síðunni hafa birst fréttir af nokkrum aðildarfélaga okkar í gegnum fréttaáskoranir sem hafa verið í gangi í vetur. Neisti skoraði á UMF Leikni að segja frá starfi sínu og hér kemur frétt frá þeim:

U.M.F. Leiknir var stofnað 1940 og hefur alla tíð síðan verið driffjöður í æskulýðs- og íþróttastarfi á Fáskrúðsfirði. Eins og svo mörg önnur ungmennafélög þess tíma var Leiknir með innan sinna vébanda leiklist, fimleika, félagsmál auk keppnisíþrótta. Allt starf byggist eins og áður á sjálfboðastarfi. Leiknir er í dag deildarskipt félag og eru starfandi fjórar deildir innan þess, knattspyrnudeild, sunddeild, frjálsíþróttadeild og blakdeild.

Þá hefur stjórn félagsins séð um rekstur og uppbyggingu þreksalar í glæsilegu íþróttahúsi hér á Búðum. Salurinn er mikið notaður og hefur gerbreytt allri aðstöðu félagsmanna og annarra íbúa til líkamsþjálfunar. Manni verður hugsað til Skúla Óskarssonar kraftlyftingamanns (Stálmúsarinnar frá Fáskrúðsfirði) sem án efa er sá íþróttamaður okkar sem lengst hefur náð í íþrótt sinni, en hann var Íslands-, Norðurlanda og Evrópumeistari á árunum 1975 til 1982. Gaman er að ímynda sér hverju svona æfingaaðstaða hefði getað breytt fyrir hann.

Við eigum og rekum einnig þjónustuhús við íþróttavöllin hér á Búðum, en þar eru skrifstofur félagsins.

Mikil gróska er í starfi knattspyrnudeildar og eru menn duglegir í að taka þátt í mótum og halda mót. Leiknir er með lið í þriðju deild meistaraflokks karla, og í samstarfi við Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar erum við með lið í meistaraflokki kvenna og yngri flokkum.

Öflugt starf er í blakinu þar sem meðal annars er ferðast landshorna milli til keppni.

Leiknir hefur um árabil tekið þátt í sundmótum og starfað á þeim vettvangi. Við höfum verið svo lánsöm að hafa hér litla innilaug sem er ein elsta sundlaug fjórðungsins. Nú bregður svo við að hún verður lokuð í sumar og er því líklega sjálf hætt með sundæfingar yfir þann tíma. Þetta er ekki síst slæmt þar sem framundan er Unglingalandsmót UMFÍ hér austanlands í sumar.

Í frjálsum íþróttum höfum við í gegnum árin alltaf átt góða keppendur sem jafnvel hafa náð inn í landslið. Mikill metnaður er til staðar og ég hef fulla trú á að héðan komi öflugir einstaklingar innan tíðar. Geta má þess að okkar elsti keppandi og heiðursfélagi Sigurður Haraldsson keppir á öldungamótum bæði innan og utanlands í frjálsum og stendur sig frábærlega. Hann færði félaginu verðlaunasafn sitt fyrir nokkru og það eru ófáir gripir.

Við höldum árlega svokallað sólarkaffi þar sem við fögnum því að sólin kemur upp yfir suðurfjöllin eftir rúmlega tveggja mánaða fjarveru og jafnframt veitum við verðlaun því íþróttafólki sem við teljum hafa skarað framúr á liðnu ári ásamt því að velja íþróttamann UMF Leiknis sem í dag er Fannar Bjarki Pétursson.

Leiknir tekur virkan þátt í framkvæmd Franskra Daga sem nú verða haldnir í 16. skipti dagana 21. – 24. júlí, en Franskir dagar eru Menningarhátíð þar sem öll fjölskyldan getur fundið eitthvað við sitt hæfi s.s. göngutúra, sýningar, keppnir ýmiskonar, flugeldasýningu og dansleiki.

Þarna er aðeins stikklað á stóru.

Ég skora síðan á vini okkar í Einherja á Vopnafirði að rita næstu grein.

Íþróttakveðja

Steinn Jónasson

 

 

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok