Sprettur Sporlangi gerir griðasamning

Hreindýrið Sprettur Sporlangi, lukkudýr UÍA, undirritaði í morgun samning við Umhverfisstofnun sem gefur honum grið frá hreindýraveiðum. Hreindýraveiðitímabilið hófst á miðnætti og stendur fram í miðjan september. Sprettur hlakkar mikið til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ, sem haldið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina og telur samninginn mikilvægan til að tryggja öryggi sitt.

Sprettur var kynntur til sögunnar sem lukkudýr Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands um seinustu helgi. Hann heiðraði Sumarhátíð sambandsins með nærveru sinni og er spenntur fyrir Unglingalandsmótinu sem UÍA hýsir að þessu sinni.

„Ég heyrði það alla leið upp á Fljótsdalsheiði að það verði þúsundir brosandi andlita á Egilsstöðum á Unglingalandsmótinu um verslunarmannahelgina og einstakt fjör. Þar verður frábær skemmtun fyrir alla, líka hreindýr,“ segir Sprettur sem hefur mikinn á íþróttum. „Uppáhaldsgreinarnar mínar eru fjallahlaup og girðingastökk.“

Sprettur taldi ferðaöryggi sínu ógnað á hreindýraveiðitímanum. Hann fór þess því á leit við Umhverfisstofnun, sem stýrir veiðunum, að honum yrðu gefin grið. „Þessi samningur er afar mikilvægur fyrir mig. Ég er hrærður yfir því hversu jákvætt starfsmenn stofnunarinnar tóku í erindi mitt. Í staðinn ætla ég að leggja mig fram um að skemmta öllum á Unglingalandsmótinu.“

Samkvæmt samningnum er Sprettur undanþegin hreindýraveiðikvótanum. Umhverfisstofun ber að kynna veiðimönnum og leiðsögumönnum efni samningsins og ítreka það að stranglega sé bannað að veiða Sprett.

Sprettur á að kynna Austfirðingafjórðung og heimsækja Unglingalandsmótið. Hann skal einnig gefa sig fram við árlegar talningar á hreindýrum. Gert er ráð fyrir að hugsanleg deilumál vegna samningsins verði útkljáð með spretthlaupi.

Sjá samninginn í heild sinni.

Mynd: Bestu vinir alla tíð. Jóhann Guttormur Gunnarsson, sérfræðingur á náttúruauðlindasviði hjá Umhverfisstofnun og Sprettur við undirritun samningsins í húsnæði Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum í morgun.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ