Sprettur Sporlangi gerir griðasamning

Hreindýrið Sprettur Sporlangi, lukkudýr UÍA, undirritaði í morgun samning við Umhverfisstofnun sem gefur honum grið frá hreindýraveiðum. Hreindýraveiðitímabilið hófst á miðnætti og stendur fram í miðjan september. Sprettur hlakkar mikið til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ, sem haldið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina og telur samninginn mikilvægan til að tryggja öryggi sitt.

Sprettur var kynntur til sögunnar sem lukkudýr Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands um seinustu helgi. Hann heiðraði Sumarhátíð sambandsins með nærveru sinni og er spenntur fyrir Unglingalandsmótinu sem UÍA hýsir að þessu sinni.

„Ég heyrði það alla leið upp á Fljótsdalsheiði að það verði þúsundir brosandi andlita á Egilsstöðum á Unglingalandsmótinu um verslunarmannahelgina og einstakt fjör. Þar verður frábær skemmtun fyrir alla, líka hreindýr,“ segir Sprettur sem hefur mikinn á íþróttum. „Uppáhaldsgreinarnar mínar eru fjallahlaup og girðingastökk.“

Sprettur taldi ferðaöryggi sínu ógnað á hreindýraveiðitímanum. Hann fór þess því á leit við Umhverfisstofnun, sem stýrir veiðunum, að honum yrðu gefin grið. „Þessi samningur er afar mikilvægur fyrir mig. Ég er hrærður yfir því hversu jákvætt starfsmenn stofnunarinnar tóku í erindi mitt. Í staðinn ætla ég að leggja mig fram um að skemmta öllum á Unglingalandsmótinu.“

Samkvæmt samningnum er Sprettur undanþegin hreindýraveiðikvótanum. Umhverfisstofun ber að kynna veiðimönnum og leiðsögumönnum efni samningsins og ítreka það að stranglega sé bannað að veiða Sprett.

Sprettur á að kynna Austfirðingafjórðung og heimsækja Unglingalandsmótið. Hann skal einnig gefa sig fram við árlegar talningar á hreindýrum. Gert er ráð fyrir að hugsanleg deilumál vegna samningsins verði útkljáð með spretthlaupi.

Sjá samninginn í heild sinni.

Mynd: Bestu vinir alla tíð. Jóhann Guttormur Gunnarsson, sérfræðingur á náttúruauðlindasviði hjá Umhverfisstofnun og Sprettur við undirritun samningsins í húsnæði Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum í morgun.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok