Neisti bregst fljótt og örugglega við fréttaáskorun

UMF Þristur sagði fyrir skemmstu frá starfi sínu og skoraði á UMF Neista að gera slíkt hið sama. Neistamenn voru ekki seinir á sér og hér er komin frétt frá þeim:

Hér fer á eftir samantekt um Ungmennafélagið Neista á Djúpavogi. Félagið var stofnað í febrúar árið 1919 og er því komið á tíræðisaldur.  Á sinni löngu ævi hefur Neisti komið að hinum ýmsu verkefnum í hreppnum m.a. leiklist og skógrækt.

Um miðja síðustu öld var rekstur félagsheimilisins Neista mjög stór þáttur í starfsemi Ungmennafélagsins en þá voru haldin böll í félagsheimilinu nánast um hverja helgi. Ennfremur var þar boðið upp á íþrótta- og æskulýðsstarf við frumstæðari aðstæður, en finna má í nútíma félagsmiðstöðvum og íþróttahúsum.
Í dag snýst starfsemi Neista nánast eingöngu um börnin okkar hér í sveitarfélaginu. Í  boði eru æfingar í fótbolta, sundi, frjálsíþróttum  og öðrum íþróttagreinum.  Mikið og gott samstarf er á milli Neista og skóla  sveitarfélagsins, þar sem starf allra er stillt þannig saman að samfella er í degi barnanna og þau flest búin í skólanum, íþróttum og tónlist kl.15.
Börnin okkar eru mjög dugleg að nýta sér það sem í boði er og gaman er að segja frá því að af 47 börnum í grunnskólanum eru 44 sem æfa hjá Neista. Geri aðrir betur !  Í heildina eru 52 börn að æfa hjá Neista því elsta árgangi leikskólans býðst einnig að taka þátt. Flest barnanna æfa fleiri en eina grein og þó nokkur æfa allt sem í boði er! 
Íþróttatengdir viðburðir á vegum Neista eru ófáir yfir árið. Helst bera að nefna sundmót Neista sem haldið er árlega í kringum sumardaginn fyrsta. Fótboltamót litlu skólanna var haldið hér í fyrsta skipti síðasta vor í samvinnu við  Grunnskóla Djúpavogs. Mikil ánægja var með þetta mót og vonum við að það verði árlegt hér eftir.  Neistadagurinn er lítið innanfélagsmót sem haldið er í lok sumars. Þar er keppt í frjálsum íþróttum, grillað og endað á liðakeppni í víkingaspilinu KUBB.  Iðkendur Neista eru svo verðlaunaðir fyrir góða framistöðu á uppskeruhátið sem haldin er í byrjun árs. Þá hittumst við öll, sem erum í Neista, í íþróttahúsinu og leikum okkur saman, keppum í þrautabraut. Pabbar keppa í kúluvarpi, mömmur í spjótkasti og svo fá allir kaffi/svala og skúffuköku.
Annað starf og uppákomur á vegum Ungmennafélagsins er í nokkuð föstum skorðum og sterk hefð hefur myndast hér í þorpinu okkar fyrir því, sem Ungmennafélagið gerir fyrir samfélagið.  T. d. hefur árleg Spurningakeppni Neista verið í gangi í tugi ára (með stuttum hléum þó). Þar keppa fyrirtæki staðarins í skemmtilegri spurningakeppni þar sem getur reynt á ýmsa hæfileika keppenda.  Í samstarfi við Slysavarnarfélagið Báru sér Neisti um skemmtun á 17. júní.  Jólabingó Neista er ómissandi í desember og rauðklæddir sveinar á vegum félagsins færa þægum börnum  pakka á aðfangadag.  Aðrar fjáraflanir eru t.d. sala á ýmsum varningi.
Á síðasta ári brydduðum við svo upp á þeirri nýbreytni að halda skautadag fjölskyldunnar. Við erum nefninlega svo heppin hér á Djúpavogi að eiga besta skautasvell landsins (gert af náttúrunnar hendi) !  Stjórn Neista útbjó þessar fínu skautabrautir á svellið, dröslaði borðum á svæðið , ásamt grilli. Óhætt er að segja að þetta hafi heldur betur slegið í gegn og talið er að um 80 manns á öllum aldri hafi verið að skauta á svæðinu þegar mest var. Þess á milli var sest niður að spjalla og borða grillaðar kræsingar.   Stefnt er að því endurtaka þetta (ef veðurguðirnir lofa) um næstu helgi og skorum við á alla að koma til okkar og prófa besta skautasvæði Íslands.
Hægt er að fylgjast með á heimasíðunni okkar www.djupivogur.is/neisti
Að lokum langar okkur að þakka öllum þeim sem taka þátt í að styrkja starfsemi Neista með einum eða öðrum hætti. Þúsund þakkir .
Við skorum á vini okkar í Umf. Leikni að segja okkur fréttir úr þeirra starfi.
Djúpavogi í mars 2011;
F.h. Umf. Neista;
Sóley Birgisdóttir, formaður.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok