Þristur bregst við áskorun
Þessa dagana er í gangi fréttaáskorun hér á heimasíðunni, þar sem eitt aðildarfélag segir frá starfi sínu og skorar svo á annað að gera slíkt hið sama. Skorað var á UMF Þrist og kemur hér frétt frá þeim:
Ungmennafélagið Þristur þakkar áskorunina og tæpir hér á því helsta í starfi félagsins.
Starfssvæði UMF Þristar er á Völlum, Skriðdal og Fljótsdal og er helsta bækisstöð þess á Hallormsstað. Starfsemi félagsins hefur verið öflug og Þristur getið sér gott orð sem ,,krúttlegt og kraftmikið" ungmennafélag, svo vitnað sé í orð eins ónefnd félagsmanns. Félagið er í góðu samstarfi við Hallormsstaðaskóla og heldur úti æfingum í íþróttahúsi skólans. 10 ára og yngri æfa einu sinni í viku og 11-16 ára tvisvar. Fullorðnir æfa einnig grimmt en tvisvar í viku leika Þristar badington, einu sinni í viku hittast körfuboltamenn og spila og eitt kvöld í viku bjóðum við uppá fjölskyldublak, en þá koma heilu fjölskyldurnar saman og spila blak af lífi og sál. Að vori og hausti þegar sundlaugin á Hallormsstað er opin stunda Þristar þar sund af kappi og hafa sótt ýmis UÍA mót í fjórðungnum. Eftir að sundtímabilinu okkar líkur leggjum við stund á hinar ýmsu íþróttagreinar s.s. frjálsar íþróttir en við höfum einnig átt keppendur á mótum á vegum UÍA. Meðal árlegra viðburða á okkar vegum er Skógarskokk sem haldið er á hverju hausti en þá koma Þristar saman og taka á sprett í Hallormsstaðaskógi og gera sér ýmislegt til skemmtunar. Undanfarin ár hefur á Skógarskokki verið keppt um frumlegasta höfuðfatið eða búninginn og þátttakendur því oft afar skrautlegir. Þristur stendur einnig fyrir afar vinsælu Páskaeggjaskákmóti þar sem allir þátttakendur fá lítið páskaegg að launum fyrir þátttöku sína og þeir hlutskörpustu hreppa stór og glæsileg páskaegg. Þristur stendur í samvinnu við KAABER einnig fyrir kaffihúsaskákmóti á Skriðuklaustri og hefur það skapað sér fastan sess meðal skákáhugamanna um allt Austurland. Á skólaslitum Hallormsstaðaskóla höldum við nokkurs konar uppskeruhátíð, veitum viðurkenningar og sýnum myndir úr starfi félagsins. Þristur hefur einnig kappkostað að kynna nýjar íþróttagreinar fyrir iðkendum sínum í haust fengum við Takwondo kennara til að heimsækja okkur og sýna hin ýmsu brögð og fyrirhugað er að halda nú í mars Dansdag Þristar en þá fá börn og foreldrar að taka sporið undir leiðsögn dansþjálfara. Á sumrin teflir Þristur fram knattspyrnuliði í Launaflsbikarnum og í því sem og öðru starfi Þristar svífur hinn sanni ungmennafélagsandi yfir vötnum og leikgleðin ræður ríkjum.
Það má því segja að líf og fjör sé hjá UMF Þristinum og erum við þakklát öllu því góða fólki sem stutt hefur við starfið okkar með einum eða öðrum hætti. Auk þess þökkum við UÍA fyrir skemmtilegt starf og mótahald sem hefur gefið krökkunum okkar kost á að sækja mót í heimabyggð.
Við skorum á vini okkar og nágrana handan Öxi Ungmennafélagið Neista að segja frá starfi sínu næst.