250 þúsund króna afmælisgjöf frá Fjarðabyggð
Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 6. júlí að styrkja UÍA um 250.000 krónur í tilefni af sjötíu ára afmæli sambandsins og unglingalandsmótinu sem sambandið hýsir á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.
Styrkurinn var formlega afhentur í afmælisveislu UÍA sem haldin var á laugardag. Það var Gunnar Jónsson, staðgengill bæjarstjóra, fyrrum gjaldkeri UÍA og formaður sundráðs sambandsins sem afhenti Elínu Rán Björnsdóttur, formanni UÍA styrkinn. Hann færði sambandinu einnig blómvönd og heillaóskir í tilefni afmælisins.
Gunnar lét þess jafnframt getið að styrkjamál sveitarfélagsins til UÍA yrðu tekin til rækilegrar skoðunar með jákvæðum hug við fjárhagsætlunargerð í haust.
UÍA þakkar Fjarðabyggð fyrir höfðinglega gjöf og stuðninginn í gegnum árin.