Magnað málþing

Síðastliðinn föstudag hélt UÍA í samstarfi við Fjarðabyggð og Mennta- og menningarmálaráðuneytið málþingið Þátttaka er lífsstíll Ungt fólk á Austurlandi.

 

Um 60 manns sóttu málþingið sem fram fór í húsnæði heimavistar Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Markmið málþingsins var að vekja ungt fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að taka virkan þátt í samfélagi sínu svo og að vera nokkurs konar brúarsmíð milli ungs fólks og þeirra sem ákvarðanir taka um málefni þess. Dagskrá málþingsins tók mið af þessu og var því fjölbreytt. Andri Bergmann tónlistarmaður hóf leikinn, sagði frá því hversu dýrmæt þátttaka hans jafnt í íþrótta- sem og tónlistarstarfi hefði reynst honum, greip hann í gítarinn af því tilefni og tók nokkur lög. Björn Hafþór Guðmundsson ræddi um hlutverk sveitarfélaga og þátt þeirra í að skapa og viðhalda blómlegu æskulýðsstarfi, Jóhann Atli Hafliðason úr Menntaskólanum á Egilsstöðum og Karítas Ôsk Valgeirsdóttir úr Verkmenntaskóla Austurlands héldu erindi undir yfirskriftinni ,,Hvernig er að vera ungur á Austurlandi?" , Þóroddur Helgason frá glímudeild Vals sagði frá hvernig virkja mætti ungt fólk til þátttöku og Hjörtur Ágústsson kynningarfulltrúi Evrópu unga fólksins kynnti starfsemi EUF og þá styrki sem þangað má sækja. Björn Ármann Ólafsson fulltrúi UMFÍ  sleit málþinginu og Jón Björn Hákonarson stýrði því.

 

Eftir að málþingsgestir höfðu gætt sér á veitingum og brugðið á leik með ungmennaráði UÍA tóku þeir þátt í vinnusmiðjum þar sem rætt var um stöðu ungs fólks á Austurlandi út frá ýmsum sjónarhornum. Afar ánægjulegt var að sjá hversu virkan þátt unga fólkið tók í umræðum og hversu margar góðar hugmyndir fæddust. Heilt yfir má segja að málþingsgestir hafi komist að þeirri  niðurstöðu að gott væri að vera ungur á Austurlandi og margskonar æskulýðs- og íþróttastarf væri hér í boði. Þegar rætt var um það sem ungmennin vildu gjarnan sjá öðruvísi var bent á að gaman væri að hafa bíó í föstum rekstri, margir söknuðu þess að hafa ekki öflugt handboltastarf hér eystra svo og bardagaíþróttir,  Einnig benti unga fólkið  á, að mikilvægt væri að halda oftar vímuefnalausar skemmtanir þar sem unglingum af öllu Austurlandi gæfist kostur á að koma saman, mjög gjarnan mætti hafa það með öðrum hætti en að halda böll, en á þeim gæfist lítið næði til að spjalla og kynnast. Gott væri t.d. að bjóða uppá íþróttasamkomur þar sem keppni væri ekki aðalatriðið heldur allir gætu verið með óháð getu. Gamli hrepparígurinn var tekinn til umræðu og benti unga fólkið á að hann gæti hamlað samstarfi og samskiptum milli staða og svæða á Austurlandi og væri það miður. Aukin heldur að vegalengdir og takmarkaðar almenningssamgöngur gerðu ungu fólki erfitt fyrir að halda tengslum milli svæða.

UÍA þakkar samstarfsaðilum sínum hjá Fjarðabyggð og Mennta-og menningarmálaráðuneytir kærlega fyrir gott samstarf sem og öllum sem hönd lögðu á plóginn við skipulagningu og framkvæmd málþingsins. Síðast en ekki síst þökkum við ungu fólki á Austurlandi fyrir skemmtilegt og árangursríkt málþing.

Á myndinni hér til hliðar sést Karítas Ósk Valgeirsdóttir. Fleiri myndir af málþinginu má finna hér

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok