Fullt af verðlaunapeningum heim frá Laugum
Tíu af ellefu keppendum UÍA á Sumarleikum HSÞ sem fram fóru á Laugum fyrstu helgina í júlí komu heim með verðlaunapeninga um hálsinn.
Daði Þór Jóhannsson úr Leikni Fáskrúðsfirði vann gullverðlaun í 60 metra hlaupi og langstökki en hann stóð einnig á palli í 600 metra hlaupi, hástökki og boltakasti í flokki 10-11 ára pilta.
Andri Björn Svansson vann til gullverðlauna í 60 metra hlaupi og varð annar í langstökki og 600 metra hlaupi í flokki 9 ára og yngri.
Atli Pálmar Snorrason kom heim með fimm verðlaunapeninga fyrir 60 metra grindahlaup, 800 metra hlaup, 60 metra spretthlaup, hástökk og langstökk í flokki 12-13 ára pilta.
Hrefna Ösp Heimisdóttir vann til þrennra gullverðlauna í 400 metra hlaupi, spjótkasti og langstökki stúlkna 12-13 ára auk verðlauna í sleggjukasti, 800 metra hlaupi og 60 metra hlaupi.
Helga Jóna Svansdóttir keppti í sama flokki. Hún vann 60 metra og 200 metra hlaupin og komst á pall í 60 metra grindahlaupi og langstökki.
Sigríður Tinna Sveinbjörnsdóttir vann til gullverðlauna í 400 og 1500 metra hlaupum í flokki stúlkna 15-16 ára. Að auki vann hún til verðlauna í 100 og 200 metra hlaupum, 100 og 300 metra grindahlaupum, hástökki, langstökki og þrístökki, alls níu verðlaun.
Sem svo oft áður var Daði Fannar Sverrisson sigursæll í kastgreinum en hann sigraði í spjótkasti, kringlukasti, kúluvarpi, sleggjukasti og 100 metra grindahlaupi. Til viðbótar fékk hann verðlaun í 100 og 400 metra hlaupi í flokki 14-15 ára.
Andri Fannar Helgason varð annar í boltakasti 10-11 ára hnokka og í spjótkasti. Bróðir hans, Einar Bjarni Helgason, varð annar í spjótkasti 12-13 ára stráka.
Atli Geir Sverrisson varð annar í sleggjukasti 12-13 ára og Magnea Heimisdóttir keppti í flokki 10-11 ára stúlkna.
Úrslit mótsins má finna á fri.is.