Meistaramót UÍA í sundi
Meistaramót UÍA í sundi fór fram nú um helgina í sundlauginni á Neskaupsstað. Mótið var ætlað keppendum 17 ára og yngri og mættu um 50 þátttakendur til leiks frá fjórum félögum Austra, Neista, Þristi og Þrótti. Góð stemming var á mótinu og skemmtilegt var að fylgjast með ungu og upprennandi sundfóki spreyta sig.
Á mótinu voru veitt verðlaun stigahæstu einstaklingum í hverjum flokki og voru þau Bjarni Tristan Vilbergsson, Neista og Nikolína Dís Kristjánsdóttir, Austra hlutskörpust í flokki 11-12 ára. Adrian Daníelsson, Austra og Þórunn Egilsdóttir, Þrótti sigruðu í flokkum 13-14 ára og Gabríel Örn Björgvinsson, Neista í flokki 15-17 ára. Ungmennafélagið Neisti á Djúpavogi sigraði í heildarstigakeppni mótsins með 580 stigum, en lið Þróttar varð í öðru sæti með 544 stig.
Framkvæmd mótsins gekk vel. UÍA fékk til liðs við sig yfirdómara og ræsi frá Sundsambandi Íslands, þar á ferð voru hjónin Gústaf A. Hjaltason og Guðrún G. Sigurþórsdóttir en þau eru máttarstólpar í sundfélaginu Ægi í Reykjavík. Afar lærdómsríkt var að njóta fullþingis þeirra. Við þökkum þeim, og hinum fjölmörgu sjálfboðaliðum, fyrir aðstoðina við framkvæmd mótsins. G Skúlason og Hótel Capitano færum við einnig bestu þakkir fyrir stuðning við mótið.
Úrslit og myndir af mótinu birtast hér á síðunni innan skamms.