Afmælisterta á formannafundi
Afmælisterta frá Fellabakaríi var á boðstólnum á formannafundi UÍA sem haldinn var á Egilsstöðum í gær í tilefni 70 ára afmælis sambandsins. Á fundinum voru helstu verkefni sumarsins rædd.
Aðalumræðuefni fundarins var aðkoma aðildarfélaga UÍA að Unglingalandsmótinu sem UÍA heldur á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Þar er þörf á fjölda sjálfboðaliða en í frjálsíþróttakeppnina eina og sér þarf um 100 manns.
Að auki voru kynnt helstu verkefni sumarsins en þar ber hæst Sumarhátíðina sem haldin verður á Fljótsdalshéraði dagana 8. - 10. júlí og er eins konar frumraun fyrir mótið í lok júlímánaðar.
Formannafundinn bar upp á 70 ára afmæli sambandsins. Af því tilefni var boðið upp á tertu en Margrét Vera Knútsdóttir, formaður Hugins, skar fyrstu sneiðina. Þá var UÍA fánanum flaggað víða um fjórðunginn eins og meðfylgjandi mynd frá Djúpavogi ber með sér.