UÍA hópur á MÍ 11-14 ára í Vík
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára fór fram í Vík í Mýrdal síðastliðna helgi. UÍA átti þar sjö keppendur sem stóðu sig með prýði. Bestum árangri náði Leiknismaðurinn knái Daði Þór Jóhannsson hafnaði í öðru sæti í 800 m hlaupi og í þriðja sæti í 60 m hlaupi í flokki 11 ára stráka. Nokkrir UÍA keppendur komust í úrslit og voru hársbreidd frá verðlaunasæti. Margir bættu árangur sinn verulega.
Veðurguðirnir fór mildum höndum um keppendur, starfsfólk og áhorfendur á laugardeginum. Eftir að keppni lauk hélt hópurinn í óvissuferð um svæðið, brá á leik í fjörunni, skoðaði Dyrhólaey og Skógafoss. Á sunnudeginum var veðráttan heldur óblíðari, úrhellisausandi rigning og rok af sterkustu gerð.
Mótshaldarar gerðu það besta úr stöðunni, ríghéldu niður vindmælum og hástökksrám sem annars hefðu fokið um keppnisvöllinn, rúntuðu með vörubíla og hestakerrur inná völlinn til að gefa keppendum kost á að komast í skjól. Veðurhamurinn setti einnig mark sitt á árangur keppenda, okkar minnsta og léttasta fólk hreinalega fauk áfram enda munar um að fá um 15 metra á sek í meðvind í hlaupum og stökkum. En hópurinn stóð sig vel þrátt fyrir veður og vinda og kom heim ánægður og reynslunni ríkari.