Fornleikar á fimmtudegi: Fjórði dagur Frjálsíþróttaskóla

Farið var aftur til fortíðar með fornaldaríþróttum og hinni þjóðlegu íslensku glímu á fjórða degi Frjálsíþróttaskóla UÍA á Egilsstöðum í dag.

Á fyrri æfingu dagsins var farið i létta leiki, langstökk og kennt að hlaupa með stöng. Fleiri áhöld og meiri undirbúning þarf þó áður en ráðist verður í alvöru stangarstökk.

Á seinni æfingunni leit Lovísa Hreinsdóttir við og kenndi kúluvarp á meðan Hildur þjálfaði þrístökk. Í lok æfingarinnar fór fram æsileg húllakeppni þar sem skipt var í lið eftir kynjum. Þrír strákar höfðu þar betur á móti níu stelpum.

Eftir lautarferð í Tjarnargarðinn var farið í skoðunarferð á Minjasafnið. Þar voru herklæði fornkappa mátuð en nemendurnir fengu að fara í brynjur, máta hjálma, skyldi og vopn. Inni á safninu voru einnig spiluð fornspil eins og hnefatafl og refskák.

Næst færði hópurinn sig aftur yfir á Vilhjálmsvöll þar sem Michelle safnkennari stýrði fornleikum. Þar sýndu nemendurnir mikil tilþrif í bogfimi, grjótkasti, slöngvuvaði og hringaspili.

Sundlaugarferð var seinasta verk fyrir kvöldmat þar sem farnar voru ótal ferðir í rennibrautina og stelpurnar hefndu fyrir ósigurinn í húllinu með gjörsigri í burslustríði.

Eftir kvöldmatinn mætti góðkunningi Frjálsíþróttaskólans Þóroddur Seljan með þrjá vaska glímumenn með sér á Vilhjálmsvöll þar sem kennd voru grunnbrögðin í glímu. Þeirri stund, sem varð lengri en ætlað var vegna mikils áhuga, lauk á bændaglímu þar sem Sindri Freyr Jónsson, nemandi Þóroddar, lagði læriföðurinn.

Seinasta atriði kvöldsins var spurningakeppni í umsjá hins (næstum) alvitra spurningajöfurs Stefáns Boga Sveinssonar. Þar réðust úrslit á seinustu spurningu. Stefán Bogi, sem er ljóðskáld í frístundum, las einnig upp nokkur hljóð með krökkunum.

Þá var mættur á svæðið hinn diskóglaði Óttar Brjánn Eyþórsson, næturvörður með meiru sem sá til þess að krakkarnir færu ekki of seint að sofa. Framundan er seinasti dagurinn þar sem haldið er uppskerumót sem öllum er frjálst að mæta á.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok