Fjör í Fjarðabyggð: Þriðji dagur Frjálsíþróttaskólans
Frjálsíþróttaskólinn er ekki einskorðaður við einn stað eins og Egilsstaði. Deginum í dag var að miklu leyti varið í fjölbreytta afþreyingu í Fjarðabyggð.
Á morgunæfingunni var farið í boðhlaup og kringukast undir stjórn Hildar. Hádegismaturinn var snemma enda mikið ferðalag fyrir höndum. Áður en hún hófst voru þó lesin nokkur ljóð, valin af handahófi sem voru eftir Tómas Guðmundsson.
Fyrst var farið í Mjóeyri og þaðan haldið út á bátum. Nokkrir reyndu að veiða en árangurinn þar var lítill á meðan aðrir hreinlega sigldu í strand.
Eftir sjóferðina var farið í eldsnögga sundferð á Eskifirði en síðan brunað beint í gönguferð sem var hluti af gönguvikunni Á fætur í Fjarðabyggð.
Farið var upp Geitárhúsagil undir leiðsögn hins margslungna glímufrömuðar Þórodds Seljan. Hann sagði sögur og leiddi stóran hóp göngufólks áfram í ævintýralegu landslagi í gegnum lyng, kjarr og lúpínur.
Sumir höfðu enn orku til að fara út í leiki eftir kvöldmat en aðrir slöppuðu af enda dagurinn ekki enn búinn. Næturvörðurinn Óttar Brjánn Eyþórsson mætti um tíu leytið og byrjaði að kenna krökkunum grunnatriðin í taek-won-doe.
Sannarlega ekki mikið mál að fara að sofa eftir svona stuðdag.