Eimskip meðal aðalstyrkaraðila Unglingalandsmótsins
Eimskip hefur gengið í hóp aðalstyrktaraðila 14. Unglingalandsmóts Ungmennafélags Íslands sem haldið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Karl Gunnarsson, svæðisstjóri Eimskipa á Austurlandi og Helga Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, undirrituðu samkomulag þar um á mánudag.
Samkomulagið felur meðal annars í sér að Eimskip eða Flytjandi, sjá um alla flutninga sem tengjast mótinu í sumar. Um töluvert magn af hlutum af ýmsum stærðum og gerðum er að ræða oft um langar vegalengdir.
Þetta hafði Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, að segja við undirritunina:
„Ég vil fá að nota þetta tækifæri og þakka stjórnendum Eimskipa fyrir stuðninginn við framkvæmdina á Unglingalandsmótinu. Það er ákaflega mikilvægt fyrir hreyfinguna að hafa svona stuðning til að geta framkvæmt svona stórt verkefni eins og Unglingalandsmótið er.
Ávinningurinn er allra. Fyrir ungmennafélagshreyfinguna á landsvísu og á sambandssvæði UÍA , fyrir sveitarfélagið og fyrir Eimskip sem með stuðningnum er sammála hreyfingunni um mikilvægi forvarna, samskipti fjölskyldunnar og stuðningi við börn og unglinga.“
Mynd: Helga Guðjónsdóttir og Karl Gunnarsson undirrita samninginn.