Hreyfing og hámenning: Annar dagur Frjálsíþróttaskólans

Í Frjálsíþróttaskólanum er lögð á hið sígilda: heilbrigða sál í hraustum líkama. Innan ungmennafélagshreyfingarinnar hefur allt frá upphafi verið lögð áhersla á menningu eins og íþróttir. Stundatafla skólans endurspeglaði þetta í dag.

Allir vöknuðu kátir í morgun, tilbúnir að takast á við þrusuþriðjudag. Með morgunmatnum var lesið ljóð, Fjallganga Tómasar Guðmundssonar.

Á fyrri æfingu dagsins var lögð áhersla á grindahlaup. Mekkín Bjarnadóttir (Metta) var þar gestakennari en margir voru að kynnast grindahlaupinu í fyrsta sinn. Þá hafði reyndar bæst við einn nemandi og eru þeir nú orðnir tólf.

Gunnar mætti með myndavélina og myndaði nemendurna þar sem þeir stukku yfir grindurnar. Myndirnar voru skoðaðar á tækniæfingu eftir kvöldmat. Þar sást glöggt hvað menn gerðu rétt og hvað ekki. Myndavélin lýgur ekki.

Á seinni æfingunni eftir hádegi var farið í hlaupaæfingar og leiki.

Síðan var dagskráin brotin upp og farið upp í Stóra-Sandfell í Skriðdal þar sem Jóka tók á móti hópnum en hún rekur þar hestaleigu. Hópnum var skipt í tvennt, helmingurinn var á hestunum en hinn hlutinn fór í ratleik um Sandfellsskóg með Hildi.

Þegar heim var komið var að sjálfsögðu farið í sund.

Berglind Ósk Agnarsdóttir, sagnaþula frá Fáskrúðsfirði, kom í heimsókn eftir kvöldmat. Hún sagði sögur af prinsum og prinsessum, kóngum og drottningum, klækjum og brögðum og grænum slímugum höndum.

Berglind fékk næstum ekki að hætta. Hún var sílfellt beðin um eina sögu í viðbót. Og síðan aðra sögu. Og lokasögu og lokalokasögu.

Meira að segja þótt Thelma, sem sér um næturvaktirnar, væri komin var tími fyrir eina sögu í viðbót. En það var með því skilyrði að allir færu þægir að sofa.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok