Fyrsta umferð í Launaflsbikarnum
Fyrsta umferðin í Launaflsbikarnum var leikin síðastliðinn sunnudag. Keppnin fór vel af stað.
Í A-riðli tók Knattspyrnufélagið Spyrnir, sem lék í 3. deild í fyrra, á móti meisturum síðasta árs Ungmennafélagi Borgarfjarðar. Lið Spyrnis skipa margar heldri knattspyrnukempur af Héraði auk leikmanna úr meistaraflokkshópi og 2. flokki Hattar. Reyndust heimamenn sterkari og komust í 3-0 en meistararnir klóruðu í bakkann og lokatölur urðu 3-2.
Knattspyrnufélag Eskifjarðar tók á móti Ungmennafélaginu Þristi og urðu lokatölur þar 4-0 fyrir heimamenn. Þristarmenn hafa marga fjöruna sopið í þessari keppni og láta án þetta bakslag líklega ekki á sig fá en Eskfirðingar verða líklega firnasterkir í ár.
Í B-riðli tók Samvirkjafélag Eiðaþinghár á móti Boltafélagi Norðfjarðar 1996. Heimamenn brenndu sig illilega á nýrri reglu í keppninni sem segir til um að leikmaður sem fær gult spjald fari út af í 10 mínútur. Misstu SE tvo leikmenn af velli í fyrri hálfleik og lentu 3-1 undir. Eftir það var erfitt að vinna sig inn í leikinn gegn sterkum Norðfirðingum og lokatölur urðu 2-6.
Í hinum leik riðilsins tók Hrafnkell Freysgoði úr Breiðdal á mót liði 06. apríl. Leikurinn fór reyndar fram á Djúpavogi en lið Hrafnkels mun ýmist leika þar eða á Stöðvarfirði í sumar. Þar sættu menn sig á skiptan hlut 2-2. Ágætis byrjun hjá nýliðum Hrafnkels.