Sjálfboðaliðarnir skipta okkur öllu máli

Elín Rán Björnsdóttir, formaður UÍA, gerði gildi sjálfboða að umtalsefni í ræðu sinni á hátíðarhöldum í tilefni 17. júní á Fljótsdalshéraði í gær. Ræðu hennar í heild sinni má lesa hér.

Kæru hátíðargestir

Enn á ný er kominn 17. júní - tíminn flýgur ótrúlega hratt! Það er svo virkilega stutt síðan ég var upp í sveit að renna mér með börnunum mínum, í sól og frosti og helling af snjó. Mér finnst eiginlega eins og það hafi verið í gær, en ætli það sé ekki alltaf þannig að þegar maður hefur gaman og hefur nóg að gera þá líður tíminn hratt. Ekki bara minn tími heldur líka sá tími sem börnin mín eru börn, og sá tími er svo gríðarlega dýrmætur.

Við Íslendingar eigum það til að gleyma okkur í annríki dagsins, leggjum áherslu á að vera dugleg að vinna, og sjá vel fyrir heimili og börnum, það er að minnsta kosti eins og hlutirnir hafa verið síðustu ár. Það hefur verið næg vinna í boði og því hefur fólk getað unnið að vild. Ekki margir eru í þeirri stöðu í dag, en kannski eru bara tækifæri sem felast í því! Hugsanlega sóknarfæri fyrir sjálfboðaliðahreyfingar í landinu.

Ég persónulega held að allir hafi gott af því að velta fyrir sér af og til hvað sé virkilega mikilvægt í lífinu, á tímum eins og þeim sem við göngum nú í gegnum ættu allir að gera það. Vissulega erum við ekki öll á sama máli hvað er okkur mikilvægt en þeir sem eiga börn, systkini eða foreldra vona ég að séu sammála mér í því að fjölskyldan er eitt af því mikilvægasta sem við eigum. Við viljum geta séð fyrir henni en við viljum líka að börnin okkar geti stundað nám, íþróttir, leiklist, tónlist, skátana og lengi mætti áfram telja. Við veljum okkur meira að segja sum búsetu eftir því hvort þessir hlutir séu í lagi. En við megum ekki staldra við þar og halda að þessir hlutir séu bara í lagi og það verði alltaf svoleiðis, þeir eru í lagi af því að einhverjir halda þeim gangandi, fólk gefur vinnu sína og sveitarfélög og fyrirtæki standa við bakið á íþróttahreyfingunni.

Íþróttahreyfingin er stærsta hreyfing sjálfboðaliða á Íslandi. Í íþróttafélögunum starfa mörg þúsund manns og flestir með það að markmiði að byggja upp betra íþróttastarf fyrir börn, unglinga og fullorðna. Án allra þessara sjálfboðaliða gengi allt það frábæra starf sem fer fram, ekki upp. Allir eru sammála um að þetta starf sé gríðarlega mikilvægt og forvarnargildi íþróttanna er óumdeilt.

Kröfur til hreyfingarinnar eru ávallt að aukast og er það skoðun mín að staðið sé undir þeim kröfum í langflestum tilfellum. Þeir styrkir sem veittir eru í hreyfinguna eru vel nýttir og málefnið er klárlega mikilvægt. Ég vil ekki einu sinni hugsa þá hugsun til enda ef  að íþróttahreyfingin hættir að geta sinnt þeim verkefnum sem hún hefur sinnt, vegna fjárskorts, við verðum að standa vörð um það starf sem er unnið.

Þrátt fyrir allt tal um fjárhagsvanda vil ég meina að það sé bjart framundan í íþróttahreyfingunni, í öllum erfiðleikum leynast einnig tækifæri. Við hjá UÍA höfum tækifæri til að byggja upp öflugra ungmennafélag, byggja upp öflugra mótahald innan fjórðungs, ef til vill er ástæða til að endurvekja skólamót UÍA, innan fjórðungsins eigum við orðið gríðarlegt magn mannvirkja sem sveitarfélögin hafa byggt upp og er hægt að nýta betur í mörgum til fellum, við eigum gríðarlegan mannauð og við eigum gríðarlega efnilega íþróttamenn... ef það er ekki bjart þá veit ég ekki hvað.

Í langflestum tilfellum er öflugt barna og unglingastarf forsenda fyrir því að eiga öfluga íþróttamenn. En hverjir standa á bak við barna og unglingastarfið? Jú foreldrarnir og aðrir sem vilja leggja íþróttahreyfingunni lið. Það að foreldrar fylgi börnum sínum eftir og taki þátt í starfinu er svo mikilvægt að ég get eiginlega ekki almennilega komið orðum að því. Án foreldranna sem starfa í sjálfboðastörfum er ekkert barna og unglingastarf, og þess vegna langar mig fyrir hönd Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands að segja TAKK! til allra þeirra sem leggja ómælda vinnu til hreyfingarinnar á hverju ári. Á sama tíma hvetja alla til þess að taka þátt í þessu gríðarlega mikilvæga og skemmtilega starfi sem íþróttahreyfingin bíður upp á. Við sem fyrir erum að starfa á þessum vettvangi þurfum að leggjast á eitt og kenna fólki sem ekki er vant að taka þátt í sjálfboðastörfum að taka þátt. Við þurfum að skapa tækifæri fyrir þetta fólk til að koma inn í fjölskylduna. Það er okkar sem erum að starfa að biðja fólk um að ganga til liðs við okkur, því aðeins þannig stækkum við hópinn, auðveldum verkin og eflum íþróttahreyfinguna.

Ungmennafélag Íslands varð árið 2007 100 ára. Í ár er haldið upp á 100 ára afmæli landsmóta, en fyrsta landmótið var haldið á Akureyri árið 1909. Af því tilefni er landsmót haldið á Akureyri 12. – 15. júlí í sumar. Þegar UMFÍ var 100 ára var sett niður á blað hvað ungmennafélagsandinn er... og langar mig að lesa upp hvað hann stendur fyrir

•    Ég ann landi mínu og þjóð
•    Ég er heiðarleg og hlýði samvisku minni
•    Ég treysti öðrum og mér er treystandi
•    Ég veit að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér, þess vegna hlusta ég og læri
•    Ég ber virðingu fyrir mér og öðrum og vil að aðrir beri virðingu fyrir mér
•    Ég anda að mér hreinu lofti, borða hollan mat og hreyfi mig reglulega svo mér líði vel
•    Ég tek þátt, mér og öðrum til ánægju, ég legg metnað í þau verkefni sem mér eru falin, stefni á sigur, samgleðst með sigurvegurum og get sett mig í spor þeirra sem verða undir.
•    Ég vil deila með öðrum og skila því sem lífið lánar bættu til komandi kynslóða.
•    Ég nota ekki vímuefni  - og ég lifi lífinu lifandi.

Þetta eru skilaboð sem ég held að allir vilji reyna að kenna börnum, unglingum og bara náunganum. Þetta er það sem íþróttahreyfingin hefur að leiðarljósi, reynir að kenna og byggir á. Þjöppum okkur nú saman, öll sem eitt, vinnum saman að uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar á Austurlandi og fyrir landið allt.
Ég þakka fyrir mig og lýk máli mínu á einkunnarorðum Ungmennafélags Íslands

„Íslandi allt!“

Elín Rán Björnsdóttir

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok