Helgi býður sig fram til stjórnar ÍSÍ
Kosið verður til stjórnar ÍSÍ á þingi sambandsins nú um helgina. Helgi Sigurðsson formaður íþróttafélagsins Hattar á Egilsstöðum er eini frambjóðandi landsbyggðarinnar.
Helgi er fæddur árið 1972, sonur hjónanna Sigurðar Jónssonar framkvæmdastjóra á Selfossi og Estherar Óskarsdóttur skrifstofustjóra. Helgi útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1991 og lauk tannlæknanámi frá Tannlæknaháskólanum í Bergen árið 1998. Síðan hefur hann starfað sem tannlæknir, fyrst á Selfossi en síðar á Egilsstöðum og Seyðisfirði. Hann hefur frá árinu 2000 rekið tannlæknastofur á Egilsstöðum og víðar á Austurlandi. Helgi hefur sinnt margvíslegum félagsstörfum, m.a. sat hann í stjórn knattspyrnudeildar Umf. Selfoss 1999-2000 og hefur hann sem áður segir verið formaður Íþróttafélagsins Hattar frá 2002. Hann hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs og situr nú í Skipulags- og mannvirkjanefnd sveitarfélagsins. Kona Helga er Auður Vala Gunnarsdóttir íþróttakennari. Þau eiga 3 börn, Ástu Dís 9 ára, Alvar Loga 6 ára og Bjarka Fannar 3 ára.UÍA bindur miklar vonir við framboð Helga til stjórnar ÍSÍ. Kosið er í 10 sæti í aðalstjórn en 11hafa gefið kost á sér. Auk Helga verða fulltrúar UÍA á Íþróttaþingi þau Elín Rán Björnsdóttir formaður, Gunnar Gunnarsson ritari og Stefán Bogi Sveinsson framkvæmdastjóri.