Fulltrúar á faraldsfæti

Elín Rán Björnsdóttir formaður UÍA og Stefán Bogi Sveinsson framkvæmdastjóri voru á faraldsfæti fyrir helgina og funduðu á Djúpavogi og Stöðvarfirði.

Fyrst var snæddur hádegisverður á Hótel Framtíð á Djúpavogi, en þann fund sátu fulltrúar úr stjórn Ungmennafélagsins Neista og Golfklúbbs Djúpavogs auk Björns Hafþórs Guðmundssonar sveitarstjóra sem bauð til hádegisverðarins.

Á fundinum var farið yfir blómlegt starf félaganna og myndarlega aðkomu sveitarfélagsins að starfseminni. Rætt var um Sumarhátíð UÍA og dagskrá Neista vegna yfirstandandi afmælisárs, en félagið er 90 ára á þessu ári.

Á leiðinni til baka var síðan komið við á Stöðvarfirði og rætt við fulltrúa úr stjórn ungmennafélagsins Súlunnar. Bar þar margt á góma. Farið var yfir starf félagsins en það opnaði nýlega tækjasal í íþróttaahúsi staðarins og stendur fyrir opnum íþróttatímum í húsinu. Einnig var rætt um mögulega þátttöku félagsins í verkefni UÍA, Farandþjálfun á Austurlandi 2009, sem nánar verður kynnt aðildarfélögum UÍA á næstu dögum.

Aðspurð segir Elín að hún telji mikilvægt að forsvarsmenn UÍA heimsæki aðildarfélögin reglulega til að skapa persónuleg tengsl og ræða málin. Á árinu 2009 hafa formaður og framkvæmdastjóri heimsótt íþróttafélög á Vopnafirði, Seyðisfirði, Reyðarfirði og nú Djúpavogi og Stöðvarfirði. Stefnt er að því að heimsækja fleiri staði á næstu vikum.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ