Afreksbikar afhentur
Framkvæmdastjóri UÍA gerði sér ferð í Brúarás til að afhenda Karítas Hvönn Baldursdóttur, Ásnum, afreksbikar fyrir meistaramót UÍA í frjálsum íþróttum.
Karítas var ein af af vaskri sveit 4 keppenda frá Ásnum sem kepptu í eldri flokki á mótinu og vann hún til 5 gullverðlauna auk þess að ná besta afreki mótsins í flokki 15 ára og eldri þegar hún stökk yfir 1,40 í hástökki og vann sér inn 828 stig.
Ungmennafélagið Ásinn varð til við sameiningu UMFJ á Jökuldal, Vísis í Jökulsárhlíð og Hróars í Hróarstungu og er starfssvæði félagsins þessir þrír gömlu hreppar sem nú tilheyra Fljótsdalshéraði. Allflestir nemendur Brúarásskóla koma af þessu svæði.
Framkvæmdastjóri UÍA fékk að ávarpa nemendur Brúarásskóla í kaffitíma og afhenda Karítas bikarinn. Vonandi verður þetta mörgum þessara krakka hvatning til að keppa fyrir hönd Ássins á komandi mótum UÍA.