Uppskeruhátíð Sunddeildar Austra árið 2008

Sunddeild Austra á Eskifirði hélt sína árlegu uppskeruhátíð í dag á Kaffihúsinu á Eskifirði en þar mættu foreldrar barna sem stundað hafa sundþjálfun auk þjálfara og annarra velunnara deildarinnar.

 

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir árangur og þátttöku í sundstarfinu á árinu. Virkir iðkendur í deildinni eru nú 15 í aldursflokkaþjálfun og hafa reglubundnar æfingar verið allt árið.

Brynja Gunnarsdóttir hlaut titilinn sundmaður ársins 2008. Þá fengu Veiga Petra Guðbjörnsdóttir, Ásbjörn Eðvaldsson og Jónas Orri Wilhelmsson viðurkenningar fyrir bestu ástundunina í hverjum aldursflokk auk Brynju.

Farið var í fáum orðum yfir starf sunddeildarinnar á árinu og árangur. Hefur deildin tekið þátt í sundmótum á Dalvík, Egilsstöðum og Norðfirði. Hefur árangur deildarinnar verið ágætur enda skipa deildina hópur áhugasamra keppenda sem hafa látið til sín taka. Færðar voru þakkir öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn í starfi deildarinnar á árinu. Nú tekur við vetrarfrí sem stendur fram í byrjun febrúar en þá eru áformaðar æfingar. Þá verður stefnan tekin á að bæta og efla starf deildarinnar.

Afhentar voru yfirhafnir frá Cintamani sem nýttar verða sem einkennisfatnaður deildarinnar á mótum og viðburðum. Enginn fór svangur heim úr hófinu því boðið var uppá pizzahlaðborð og spilað var svo “actionary” þar sem tókust á foreldrar og börn og að sjálfsögðu unnu börnin með yfirburðum.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ